137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur og ESB.

[13:40]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta eru þó nokkur tíðindi sem hæstv. forsætisráðherra færir okkur hér, nefnilega þau að þjóðin muni ekki fá að eiga síðasta orðið um aðild að Evrópusambandinu vegna þess að hún mun einungis fá að taka þátt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu áður en samningurinn um mögulega aðild að Evrópusambandinu kemur hingað fyrir þingið. Og þingið ætlar síðan í framhaldinu að afgreiða málið alla leið, m.a. með stjórnarskrárbreytingu. Þetta eru þó nokkuð mikil tíðindi fyrir mér.

Ég hef alltaf gengið út frá því að þjóðin fengi að eiga síðasta orðið. En sú vegferð sem nú á að fara í er svo illa ígrunduð, svo illa undirbúin að grundvallaratriði á borð við þetta eru smám saman að koma í ljós. Við getum ekki haldið áfram, við getum ekki látið okkur detta í hug að halda áfram og afgreiða þingsályktunartillöguna (Forseti hringir.) áður en mál af þessum toga eru kláruð.