137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur og ESB.

[13:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað bara útúrsnúningur hjá hv. þingmanni að halda því fram að þjóðin fái ekki að hafa síðasta orðið í þessu stóra máli. Hún mun auðvitað hafa það í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar fyrir liggja þeir kostir og gallar sem eru á því að ganga í Evrópusambandið, þá verður þjóðaratkvæðagreiðsla. Hún er að vísu ráðgefandi (Gripið fram í.) en ég sagði skýrt áðan að það yrði örugglega farið að þeirri niðurstöðu sem kæmi úr þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu. (Gripið fram í.) Síðan er alveg ljóst að breyta þarf stjórnarskránni (Gripið fram í.) ef gengið verður í Evrópusambandið. Þá þarf að rjúfa þing og efna til kosninga og það er þá líka þjóðaratkvæðagreiðsla í þeim skilningi þannig að þetta er bara útúrsnúningur. (Gripið fram í: Nei.)

Varðandi tvöföldu þjóðaratkvæðagreiðsluna finnst mér að fólkið eigi að fá að vita hvað í boði er að því er varðar Evrópusambandið, hvaða kostir og hvaða gallar fylgja því. Þegar það liggur fyrir á þjóðin að fá að segja álit sitt í því efni og ég tel hana geta gert það (Forseti hringir.) á grundvelli þess frumvarps sem liggur fyrir þingflokkunum. (Forseti hringir.) Ef það dugar ekki skoðum við auðvitað málið áfram og eins og ég sagði er verið að ræða það í utanríkismálanefnd.