137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

Icesave-samningarnir.

[13:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hv. þingmenn stjórnarliða, þ.e. stjórnarflokkarnir, veittu ríkisstjórninni heimild til að undirrita samninginn um Icesave án þess að hafa séð hann. Hæstv. ríkisstjórn, þar á meðal hæstv. forsætisráðherra, veitti hæstv. fjármálaráðherra heimild til að undirrita samninginn væntanlega eftir að hafa séð hann.

Nú reikna ég með því að hæstv. forsætisráðherra hafi kynnt sér samninginn í hörgul, kynnt sér lögfræðilegar og hagfræðilegar afleiðingar hans og að hún hafi sérstaklega kynnt sér áhættugreiningu sem fylgir slíkum samningi. Nú langar mig til að spyrja hæstv. forsætisráðherra Íslands: Hvað eru miklar líkur á, sem hún hlýtur að vita, að eignir Landsbankans um allan heim dugi ekki fyrir 30% af þeim skuldbindingum sem við erum að gangast inn á, þ.e. á gjaldþroti Íslands?