137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

Icesave-samningarnir.

[13:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er greinilegt að hæstv. forsætisráðherra Íslands hefur ekki kynnt sér áhættugreiningu í sambandi við þennan samning. Það hljóta að vera einhverjar líkur á því að eignir dugi að fullu en það hljóta líka að vera einhverjar líkur á því að þær dugi ekki nema fyrir 30% eða minna. Það hljóta að vera þessar líkur. Og hæstv. forsætisráðherra getur ekki komið hingað og lagt þjóðina og fjöregg þjóðarinnar undir án þess að nefna þessar líkur, án þess að hafa kynnt sér þær. (Gripið fram í.) Það að ákvæði sé um þetta og að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi sagt að gjaldþol Íslands hafi verið svona og svona og hann hafi vitað það, af hverju í ósköpunum var það ekki sett sem efri mörk inn í samninginn, gjaldþolið og það sem Ísland getur greitt? Hvers vegna í ósköpunum er það ekki inni í samningnum? Og hvernig getum við samið þegar við erum orðin gjaldþrota?