137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

Icesave-samningarnir.

[13:46]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það hefur nú varla farið fram hjá hv. þingmanni að lagt hefur verið mat á þessar eignir Landsbankans sem eiga að ganga upp í þessar skuldir. Þær eru allt frá því að vera 75% sem muni geta gengið upp í að greiða þessar skuldir og alveg upp í 95%. (Gripið fram í.) Það eru bæði skilanefndirnar og erlend matsfyrirtæki sem hafa lagt mat á þetta.

Ég skil ekki af hverju verið er að sá þessari tortryggni hjá þjóðinni um að þjóðin geti jafnvel orðið gjaldþrota með þessum samningi. Það er ekki hætta á neinu slíku. (Gripið fram í.) Ef það væri minnsta hætta á slíku að við værum að stefna þjóðinni í gjaldþrot (Gripið fram í.) eða að veita aðgang að eignum íslenska ríkisins, mundi ég ekki styðja slíkan samning. Það er alveg ljóst. (Gripið fram í: Þú ert nú samt að gera það.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð.)