137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

umferðarmál á Kjalarnesi.

[13:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra sem tengist máli sem brennur mjög á íbúum þess hverfis í Reykjavík sem heitir Kjalarnes. Þar hefur verið mikil og gild umræða um öryggisleysi sem stafar af ástandi í umferðarmálum. Hafa kröfur íbúanna verið um að gerðar verði tafarlausar úrbætur á hlutum sem ég held að flestum þyki mjög sjálfsagðar.

Í örstuttu máli gengur málið út á það að í gegnum þetta hverfi, þvert á það sem gerist við bæjarfélög víða um land, er keyrt mjög hratt sem skapar mikla hættu fyrir alla en sérstaklega börn sem fara þar í og úr skóla.

Krafa íbúanna er einföld, þau vilja sjá þjóðveginn girtan af, sömuleiðis að komið verði fyrir hraðahindrunum og undirgöngum. Nú hafa þau bent á að nágrannarnir í Kjós hafi t.d. undirgöng fyrir skepnur, nánar tiltekið beljur, og fyndist þeim sjálfsagt að eitthvað sambærilegt yrði gert fyrir íbúa Kjalarness.

Það er ekki alveg ljóst, virðulegi forseti, miðað við þær umræður sem verið hafa hvar þessi mál standa. Ég vek athygli á því að þetta hlýtur að vera algjört forgangsmál. Hér er ekki um að ræða milljarða. Hér er verið að ræða um milljónir, kannski tug milljóna, en málið er þess eðlis að við viljum ekki að komi til mjög alvarlegs slyss. Því miður hefur munað mjög litlu að svo hafi orðið á síðustu vikum og ég vildi gjarnan fá svör frá hæstv. ráðherra um hvar þetta mál stendur og hvernig hann hyggst bregðast við.