137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

Icesave-samningar og ríkisábyrgð.

[14:07]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er aftur og aftur að svara sömu spurningunum. Mér finnst að það eigi að verða við þeim óskum þingmanna sem hér hafa kallað eftir langri og ítarlegri utandagskrárumræðu um hana (Gripið fram í.) sem mér skildist að ætti að vera í dag. Það stendur ekkert á þessum samningi. Það hefur margkomið fram í dag að þessi samningur verður gerður opinber. Hann verður kynntur í utanríkismálanefnd, allir þingmenn fá hann og hann verður gerður opinber fyrir þjóðinni. Það hefur aldrei staðið á okkur Íslendingum að gera þennan samning opinberan. Hann verður gerður opinber. (Gripið fram í.) Það eru aftur á móti viðsemjendur okkar, Hollendingar og Bretar, sem óskuðu eftir því að hann yrði ekki gerður opinber. Þeim var tilkynnt í dag að þessi samningur yrði gerður opinber og það mun auðvitað standa á þessum degi, utanríkismálanefnd fær hann og þingmenn og öll þjóðin til þess að fara yfir.

Þegar spurt er aftur og aftur: Hvað kemur mikið á íslenska ríkið? hefur margsinnis verið sagt að það hefur verið farið yfir eignirnar og þær eiga að duga fyrir 75%–95% af þessari Icesave-skuld. (Gripið fram í: Hvað með …?) Það er ekki þar með sagt, hv. þingmenn, að restin eigi að falla á skattgreiðendur. Það er hægt að fara aðrar leiðir í því, við höfum t.d. rætt um að það væri hægt að setja álag á lánastofnanir til að setja inn í innstæðutryggingarsjóð. En hér talar hver þingmaðurinn á fætur öðrum eins og að hver einasta króna sé að falla á íslenska ríkið, og því jafnvel haldið fram að við séum að steypa þjóðinni í hreint gjaldþrot. (Gripið fram í.)

Mig undrar sá málflutningur (Forseti hringir.) þingmanna að það sé verið að hræða þjóðina með þessum hætti vegna þess að þetta er ekki rétt. Væri einhver minnsta hætta á því, eins og ég sagði hér áðan, að það væri verið að stefna þjóðinni í þjóðargjaldþrot og það væri hægt að ganga að innlendum eignum ríkisins mundi ég ekki greiða þessum samningi atkvæði hér þegar ríkisábyrgðin kemur til kasta þingsins. (Gripið fram í: Af hverju …?) Komi eitthvað í ljós (Forseti hringir.) á þessum tíma um það að við séum að stefna þjóðinni í gjaldþrot — sem er alrangt — mun ég auðvitað ekki styðja þá ríkisábyrgð sem hér verður lögð fyrir þingið. (Forseti hringir.)