137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[14:15]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um frumkvæði minni hlutans að þessari breytingu. Breytingarnar eru sannarlega til bóta og mun ég leggja til að þær verði studdar þrátt fyrir að við hefðum kosið að gerðar yrðu frekari breytingar á frumvarpinu í heild sinni. Við framsóknarmenn munum ekki geta stutt það, eins og kom fram í nefndinni, að öllu leyti þar sem þær breytingar sem við fórum fram á snerta fyrst og fremst byggðakvóta og annað slíkt en koma því miður ekki fram hér við 3. umr.

Þær breytingar sem hér eru munu snúast fyrst og fremst um öryggismál, minna brottkast og frekara aðgengi sjómanna til að geta farið betur með auðlindina og nýtt hana betur. Við óttumst þó að þessi breyting muni hafa það í för með sér í heild sinni að (Forseti hringir.) ekki verði gengið eins vel um auðlindina og æskilegt væri á þessum síðustu og verstu tímum.