137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[14:17]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég tel að með því að samþykkja þetta frumvarp sé verið að draga úr hagkvæmni sjávarútvegs á Íslandi. Það gerist þannig að það er ákveðið magn sem má veiða á hverju sumri, það er opinn aðgangur sem þýðir að þeim bátum sem notaðir eru við veiðarnar mun fjölga jafnt og þétt. Þar með verður minni afrakstur af greininni fyrir íslenskt þjóðfélag og því er ástæða til að vera á móti.

Jafnframt tel ég þetta vera margreynda tilraun. Það sem mun gerast núna er að það mun fjölga bátum á þessu sumri, ekki óhóflega, en á næsta ári mun þeim fjölga enn meira. Það er búið að skipta landinu upp í ákveðin svæði, ákveðið magn sem má veiða á hverju svæði í hverjum mánuði og eftir því sem bátunum fjölgar mun fækka dögunum sem má nota þá. Þannig mun það halda áfram þangað til enginn arður er eftir í greininni. Þá er annaðhvort að auka aflann eða, sem er langlíklegast, að lokað verður á og (Forseti hringir.) búið til nýtt leikkerfi. Það tel ég vera afskaplega óskynsamlega ráðstöfun í þessu máli öllu saman.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill minna þingmenn á að greiða atkvæði.)

Ég segi nei.