137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[14:20]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Hér kemur til lokaafgreiðslu stórmerkilegt mál. Það er verið að opna upp möguleika fyrir fólk, fyrir sjómenn, til að fara á sjó án þess að hafa keypt sér til þess sérstakar veiðiheimildir. (Gripið fram í.) Það er ekki í sjálfu sér mikill afli sem þarna er verið að ráðstafa en þetta er opnun á kerfinu. Ég bind miklar vonir við að reynslan af því geti áfram verið okkur leiðarljós.

Það er athyglisvert að heyra hér að þeir sem leggjast gegn þessu séu þingmenn Sjálfstæðisflokksins, einmitt þeir sem vilja halda óbreyttu fiskveiðistjórnarkerfi. Það er athyglisvert.

Ég þakka nefndinni fyrir afar vel unnin og góð störf í þessu máli og fagna því að þetta skuli vera á lokastigi þannig að hægt sé að fara að vinna eftir þessum nýjum lögum þegar þau hljóta endanlega staðfestingu.