137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

35. mál
[14:27]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Já, hér erum við að samþykkja breytingu á búvörulögum sem felur í sér tveggja ára lengingu á búvörusamningi. Aðdragandi þessa máls er sá að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson tilkynnti þegar hann var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra einhliða lækkun á verðtryggingu á búvörusamningum án þess að ráðist yrði í einhverjar framkvæmdir á móti, samninga við bændur og annað því um líkt, þannig að það er hlutverk Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að breiða yfir för Einars í þessu máli. Ég þakka Einari hólið sem hann sendir vinstri grænum í þessu máli því að við sjáum hér að hv. þingmenn Samfylkingarinnar (Gripið fram í.) styðja þetta mál. Það er betra en það var þegar Einar K. Guðfinnsson var landbúnaðarráðherra.