137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[14:46]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. maí sl. eru boðaðar víðtækar breytingar á skipulagi Stjórnarráðs Íslands, verkefnum ráðuneyta og stofnana ríkisins. Markmið breytinganna eru að auka skilvirkni í ríkisrekstri, einfalda stjórnsýslu og bæta þá þjónustu sem sérstök áhersla verður lögð á. Þetta kallar m.a. á breytta verkaskiptingu milli ráðuneyta og stofnana en einnig þarf að huga að því að auka samstarf þannig að ríkið í heild og einstök ráðuneyti og stofnanir vinni saman sem ein heild.

Byggja þarf upp öflugar einingar á öllum málefnasviðum ríkisins og vinna þannig með skilvirkum hætti að þeim verkefnum sem löggjafinn felur framkvæmdarvaldinu að sinna á hverjum tíma með sem minnstum tilkostnaði.

Við þær breytingar sem fram undan eru er mikilvægt að forgangsraða og tryggja sem minnsta skerðingu á grunnþjónustu og þeim verkefnum sem samstaða er um að ríkið sinni. Liður í því er að stækka og fækka einingum, gera þær hagkvæmari og skilvirkari og forgangsraða betur en gert hefur verið og draga þannig úr kostnaði ríkissjóðs til frambúðar.

Þeir þættir sem huga þarf að við fyrirhugaðar breytingar eru:

Hvernig má hagræða án þess að skerða þjónustu?

Hvernig má hagræða og bæta þjónustu?

Hvernig má efla rafræna þjónustu og draga úr kostnaði til lengri tíma?

Hvernig má samþætta þjónustu ýmissa stofnana ríkis og sveitarfélaga?

Hvernig má gera þjónustu ríkisins sveigjanlegri og hagkvæmari?

Hvernig má auka skilvirkni?

Hvernig má virkja starfsfólk betur og auka sveigjanleika í starfi?

Hvernig má efla þróun og nýsköpun innan stjórnsýslunnar?

Breytingarnar verða innleiddar í áföngum á kjörtímabilinu. Þessar breytingar kalla í sumum tilfellum á lagabreytingar, í öðrum tilvikum nægja breytingar á reglugerð nr. 177/2007, um Stjórnarráð Íslands, og í einhverjum tilfellum duga einföld bréfaskipti á milli ráðuneyta. Í frumvarpi því sem hér er lagt fram eru lagðar til þær lagabreytingar sem gera þarf til að hrinda fyrsta áfanga í þessari endurskipulagningu ríkiskerfisins í framkvæmd.

Í athugasemdum með frumvarpinu er lýst nánar þeim breytingum sem til stendur að ná fram á þessu ári. Þær snúast um tilfærslu verkefna milli ráðuneyta til þess að efla þau og samsvarandi breytingar á heitum ráðuneyta. Verður nú stiklað á stóru í þessum breytingum en þær hafa verið útfærðar í samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti.

Lagt er til að heitum ráðuneyta verði breytt á eftirfarandi hátt: Efnahags- og viðskiptaráðuneyti komi í stað viðskiptaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneyti í stað menntamálaráðuneytis, dómsmála- og mannréttindaráðuneyti í stað dóms- og kirkjumálaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti í stað samgönguráðuneytis. Þessum nafnbreytingum er ætlað að endurspegla betur meginverkefni viðkomandi ráðuneyta.

Jafnframt er að því stefnt að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarráðuneytið verði sameinað í einu öflugu atvinnuvegaráðuneyti og að til verði umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Verkefni sem tengjast efnahagsstjórn munu flytjast frá forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti til efnahags- og viðskiptaráðuneytis. Þar er einkum um að ræða Hagstofu Íslands, Seðlabanka Íslands og verkefni af efnahagsskrifstofum forsætis- og fjármálaráðuneyta.

Til að þessi efling efnahags- og viðskiptaráðuneytis nái fram að ganga þarf að breyta lögum um Hagstofu Íslands og opinbera hagsýslugerð og lögum um Seðlabanka Íslands. Vert er að leggja áherslu á að með því að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið heyri undir eitt og sama ráðuneytið er hrint í framkvæmd einni helstu tillögu finnska bankasérfræðingsins Kaarlos Jännäris sem skilaði skýrslu í lok mars um orsakir hruns íslensku bankanna. Fram undan er að meta jafnframt hvort sameina beri Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands eins og Jännäri fjallaði m.a. um í skýrslu sinni en ekki hefur verið tekin afstaða til þess.

Einnig verður skipulag hins nýja efnahags- og viðskiptaráðuneytis endurskoðað í ljósi aukinna verkefna. Þá er lagt til að við Hagstofu Íslands verði starfrækt sjálfstæð rannsóknareining sem er aðskilin frá þeirri hagskýrslustarfsemi sem fyrir er. Rannsóknareiningin skal fylgjast með afkomu þjóðarbúsins, semja þjóðhagsspár og áætlanir og birta opinberlega.

Með þessu fyrirkomulagi er undirstrikað mikilvægi þess að efnahagsspá innan ríkisins sé sjálfstæð og trúverðug. Aðilar innan ríkisins eins og efnahags- og viðskiptaráðuneytið, fjármálaráðuneytið og fleiri munu síðan nota þessar upplýsingar frá Hagstofunni við sína vinnu. Er þarna um að ræða hluta þeirrar starfsemi sem nú fer fram í efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

Þá er lagt til að dómsmálaráðuneytið fái aukin verkefni. Þannig verða verkefni sem tengjast fasteignamati og fasteignaskráningu flutt, samkvæmt frumvarpinu, frá fjármálaráðuneyti til dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og framkvæmd sveitarstjórnarkosninga frá samgönguráðuneyti. Flutningur málefna er varða mansal verður flutt frá félags- og tryggingamálaráðuneyti til dómsmála- og mannréttindaráðuneytis. Flutningur neytendamála verður úr viðskiptaráðuneyti í dómsmála- og mannréttindaráðuneyti. Er þar um að ræða ýmis lög er varða verkefni Neytendastofu og talsmanns neytenda.

Fjármálaráðuneytið verður eflt sem ráðuneyti er fer með eignarhlut ríkisins í opinberum hlutafélögum. Er gert ráð fyrir að þetta forræði flytjist til fjármálaráðuneytisins 1. september nk. ef frumvarpið verður að lögum.

Um næstu áramót flyst svo forræðið yfir Keflavíkurflugvelli ohf. og Flugstoðum ohf. Leggja ber áherslu á að þessi tilfærsla eignarhalds í félögunum breytir engu um það að önnur fagráðuneyti munu áfram fara með stjórn viðkomandi málaflokka.

Af svipuðum toga eru tillögur um að umsýsla með eignum ríkisins færist alfarið til fjármálaráðuneytisins, svo sem þjóðlendum frá forsætisráðuneytinu, jarðeignum frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og varnar- og öryggissvæðum á Keflavíkurflugvelli frá utanríkisráðuneytinu. Þannig verður þekking á eignaumsýslu samhæfð á einum stað innan stjórnkerfisins.

Þessar breytingar munu taka gildi eigi síðar en 1. júlí 2010 og gefst fjármálaráðuneytinu því ráðrúm til að fara yfir og endurskipuleggja fyrirkomulag eignaumsýslu ríkisins, m.a. í tengslum við stofnanir sínar, Fasteignir ríkissjóðs og Framkvæmdasýslu ríkisins. Síðar á árinu verður lagt fram frumvarp um nauðsynlegar lagabreytingar vegna þessa. Vinnuhópar á vettvangi hlutaðeigandi ráðuneyta munu fjalla um þessar breytingar.

Þá mun forræði menningarstofnana, menningarverkefna og sjóða, svo sem Gljúfrasteins og Þjóðmenningarhússins, stafkirkjunnar í Heimaey, þjóðveldisbæjarins í Þjórsárdal og Grænlandssjóðs flytjast frá forsætisráðuneytinu til mennta- og menningarmálaráðuneytis. Einungis flutningur Grænlandssjóðs kallar á lagabreytingu.

Í greinargerð með frumvarpi þessu er jafnframt tilgreint að samningur um Vesturfarasetur á Hofsósi skuli flytjast til, frá forsætisráðuneyti til menntamálaráðuneytis, en horfið hefur verið frá því í ljósi sérstaks eðlis starfsemi Vesturfaraseturs og sérstökum tengslum við Vestur-Íslendinga sem talið er eðlilegt að haldist í forsætisráðuneyti.

Eins og fram kemur í stjórnarsáttmálanum stendur til að efla forsætisráðuneytið sem verkstjóra- og stefnumótandi ráðuneyti innan Stjórnarráðsins. Er þar m.a. byggt á skipulagi forsætisráðuneyta í öðrum löndum og þá ekki síst í Danmörku. Meðal einkenna forsætisráðuneyta annars staðar á Norðurlöndum er að þar eru fáir eða engir málefnaflokkar eða verkefni, heldur gegna slík ráðuneyti fyrst og fremst samræmingarhlutverki og verkstjórn.

Flutningur hefðbundinna stjórnsýsluverkefna til annarra ráðuneyta skýrist af þessari fyrirætlan. Jafnframt verður þá svigrúm fyrir ríkisstjórn að fela forsætisráðuneytinu samræmingu varðandi ýmis sérstök forgangsmál. Þannig verður nú sett á fót ráðherranefnd um jafnréttismál undir forustu forsætisráðherra en jafnréttismálin almennt (Jafnréttisstofa, Jafnréttisráð, kærunefnd jafnréttismála og jafnréttisskrifstofa) verða áfram í félags- og tryggingamálaráðuneytinu.

Önnur ráðherranefnd mun tryggja eftirfylgni með verkefnum sem heyra undir önnur ráðuneyti á sviði efnahagsmála og samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Skipurit forsætisráðuneytisins verður endurskoðað með það að markmiði að gera því betur kleift að sinna forustuhlutverki við stefnumótun og samhæfingu milli ráðuneyta og á vettvangi stjórnsýslunnar almennt.

Meðal annars er þegar hafin vinna við sóknaráætlun fyrir alla landshluta og þar verður m.a. tekið til umfjöllunar hvernig samræma megi og einfalda þjónustu um land allt. Verður þar horft til þess hvernig þjónusta á vegum ríkisins annars vegar og sveitarfélaga hins vegar er skipulögð og hvort samræma megi þjónustu opinberra aðila.

Um önnur áform ríkisstjórnarinnar í síðari áföngum vísast til stefnuyfirlýsingar hennar. Þar er t.d. boðuð fækkun ráðuneytanna á kjörtímabilinu úr tólf í níu. Settur hefur verið á fót starfshópur um skipulag og verkefni ríkisstofnana.

Verkefninu er stýrt af forsætisráðuneytinu og unnið í samráði við ráðuneytisstjóra allra ráðuneyta. Starfshópurinn mun vinna með ráðuneytum og stofnunum að breytingum á skipulagi og stofnanagerð ríkisins og í samráði við aðila vinnumarkaðarins, Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra hagsmunaaðila. Annar vinnuhópur mun fjalla um fyrirkomulag stjórnsýsluumbóta og hagræðingarmála hjá ríkinu, svo sem er varða rafræna stjórnsýslu.

Markmiðið er skýrari verkaskipting og öflug samvinna milli forsætis- og fjármálaráðuneyta. Þá verður sett á fót nefnd til að fara yfir fyrirkomulag og mögulega hagræðingu vegna reksturs grunnskráa hjá ríkinu, þ.e. þjóðskrá, fasteignaskrá, fyrirtækjaskrá, ársreikningaskrá og ökutækjaskrá.

Í öllum þessum verkefnum er mikilvægt að haft verði samráð við starfsmenn og hvernig hugsanlega megi flytja til starfsmenn í samræmi við breytt verkefni, en ekki er gert ráð fyrir að starfsmönnum verði fækkað. Á hinn bóginn tel ég afar mikilvægt að í þessum breytingum verði byggt á skýrum markmiðum og leiðarljósum sem séu öllum kunn fyrir fram og byggð á jafnræðissjónarmiðum.

Eins og áður segir er eitt meginmarkmið umræddra breytinga að gera ráðuneytum betur kleift að sinna verkefnum sínum með sem minnstum tilkostnaði, skyldum málefnum verði þannig skipað saman og sérþekking nýtt sem best. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að starfsmenn fylgi verkefnum og flytjist milli ráðuneyta í samræmi við það og sama eigi við varðandi flutning starfsmanna frá efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins til Hagstofu Íslands.

Ég tel afar mikilvægt að sveigjanleiki innan stjórnkerfisins verði aukinn með það að markmiði að nýta þann mikla mannauð sem býr innan ráðuneyta og stofnana enn betur en gert hefur verið. Þar tel ég að við eigum m.a. að horfa til Danmerkur þar sem gert er ráð fyrir umtalsverðum breytingum innan stjórnsýslunnar við ríkisstjórnarskipti og jafnvel oftar eftir áherslum og breytingum í samfélaginu.

Við eigum stöðugt að endurskoða málaflokka og forgangsröðun með það að markmiði að auka skilvirkni og bæta þjónustu um leið og fyllstu hagræðingar er gætt. Ég finn fyrir áhuga meðal starfsmanna Stjórnarráðsins og einstakra stofnana, og mörg ráðuneyti og stofnanir hafa þegar margar hugmyndir um breytingar sem verða teknar til skoðunar. Ég nefni þar m.a. fyrirhugaða sameiningu Tryggingastofnunar ríkisins og Vinnumálastofnunar sem ég tel að sé afar skynsamleg.

Með frumvarpi þessu er stigið fyrsta skref af mörgum í átt til breytinga og hagræðingar. Við verðum að horfa opnum augum á alla möguleika til breytinga, ekki síst á þessum erfiðu tímum sem við göngum nú í gegnum. Ég tel að nú sé tími til þess að taka höndum saman um að skoða allar hugsanlegar leiðir og ég finn fyrir miklum samstarfsvilja innan stjórnkerfisins til að vinna að þessu máli.

Að svo mæltu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar.