137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[15:02]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur líka verið kallað eftir því hér innan þingsins að hafa sérstaka hagfræðideild en miðað við stöðu efnahagsmála tel ég að við verðum að halda okkur við það sem fyrir er í því efni og reyna að nýta það sem best. Það verður auðvitað þröngt um vik að fara að setja aukafjármagn eða peninga í Hagstofuna, menn hugsa þá frekar til þess að flytja starfsfólk þarna á milli. En ég vona sannarlega að þessi breyting á Hagstofunni verði til þess að þingið geti þá nýtt sér þetta sem best, þessa breytingu.

Varðandi forsætisráðuneytið þá kom fram í ræðu minni að hér er verið að efla verkstjórnarhlutverk forsætisráðuneytisins þannig að þetta er með líkum hætti og er hjá hinum Norðurlandaþjóðunum. En það er ýmislegt sem stendur eftir inni í forsætisráðuneytinu og ég bið hv. þingmenn bara að fara í gegnum það því að ég á fjórar sekúndur eftir. Þarna eru 22 meginatriði sem eru inni í forsætisráðuneytinu en það eru sennilega ein fimm eða sex mál, að vísu mikilvæg mál, (Forseti hringir.) sem flytjast frá forsætisráðuneytinu, eins og Seðlabankinn og Hagstofan. (Forseti hringir.) Ég tel það í samræmi við eðlilega stjórnarhætti í þessum málum að efnahagsmálin (Forseti hringir.) eigi sem mest að vera á einni hendi og nú verður það í höndum sérstaks (Forseti hringir.) efnahagsráðuneytis.