137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[15:09]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar við þessa 1. umr. að varpa fram einni eða tveimur spurningum til hæstv. forsætisráðherra um frumvarpið sem hér er til umræðu.

Ég vil þó fyrst segja að mér finnst umhugsunarvert hvort æskilegt sé að taka efnahagsmálin undan forsætisráðuneytinu nú þegar það skiptir hvað mestu máli fyrir hæstv. forsætisráðherra að vera mjög djúpt sokkinn í þau mál. Hafi einhvern tímann verið þörf á því að hæstv. forsætisráðherra sé vel inni í efnahagsmálum þá er það nú.

Mig langar hins vegar að spyrja, vegna þess að það kemur fram í greinargerð að gert sé ráð fyrir því að starfrækja hér ráðgjafarnefnd í tengslum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og að það verði undir forustu hæstv. forsætisráðherra, hvort það sé þá tímabundið þannig að þegar við ljúkum samstarfi okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn muni forsætisráðuneytið að öllu leyti láta eftir stjórn á efnahagsmálum eins og verið hefur? Já, ég sé það að ég þarf að geyma (Forseti hringir.) frekari spurningar þar til síðar.