137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[15:12]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má til sanns vegar færa að ekki sé óeðlilegt að efnahagsmál séu undir einu ráðuneyti, ég held að við þurfum kannski ekki endilega að deila mjög mikið um það. En það vekur spurningar hvort heppilegt sé að það sé tekið undan forræði hæstv. forsætisráðherra.

Efnahagsstjórn er lykilatriði í rekstri hvers lands og ég hefði haldið, og ekki síst við þær aðstæður sem nú eru, að það væri afar óheppilegt að fara að rugga þessum bát núna. Raunar held ég að hægt sé að færa fyrir því ýmis rök að þetta séu umfangsmestu og mikilvægustu störf hverrar ríkisstjórnar og ég hefði haldið að slík verkefni ættu að sjálfsögðu að vera á forræði forsætisráðuneytisins.

Mig langar líka til að spyrja gagnvart Seðlabanka Íslands — nú er líka ákvörðun um það að færa hann undan hæstv. forsætisráðherra. Þá geri ég ráð fyrir því að skipunarvaldið muni væntanlega flytjast um leið frá forsætisráðuneytinu yfir til þessa efnahagsmálaráðuneytis. Þetta ber allt að þeim brunni að hið mikla vald sem felst í stjórn efnahagsmála er fært frá forsætisráðuneytinu til einhvers annars ráðherra og þá spyr maður sig: Hvað ætlar hæstv. forsætisráðherra að hafa fyrir stafni? (Gripið fram í.)