137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[15:17]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu og heyri að hæstv. ráðherra undirstrikar það sem ég var að vonast til í þessu andsvari, að reynt er að veita jafnréttismálum meira pólitískt vægi og ég fagna því svo sannarlega.

Ég ítreka ábendingu mína sem kom fram áðan varðandi ráðuneytin, það er mjög sérstakt hvað ráðuneytin okkar eru veik hlutfallslega miðað við stofnanirnar. Ég tel að það verði að gera hér breytingu á. Það eru dæmi um að ráðuneyti hafi ekkert getað ráðið við stofnanir sem farið hafa t.d. mjög mikið fram út fjárlögum. Það fylgjast kannski ein eða tvær manneskjur í ráðuneyti með stofnunum sem velta mjög háum fjárhæðum og hafa eiginlega engin tök á því að halda utan um þau mál, fyrir utan það að það vantar líka mjög mikið upp á stefnumótun í mörgum málaflokkum innan ýmissa ráðuneyta.

Ég held að við þurfum að endurskoða svolítið þetta kerfi og styrkja ráðuneytin á næstu árum.