137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[15:33]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands sem hæstv. forsætisráðherra hefur nú nýlega mælt fyrir.

Margt í frumvarpinu horfir við fyrstu sýn til bóta og allt gott um það að segja. Ég vil hins vegar setja það frumvarp sem við ræðum hér í samhengi við þá stöðu efnahagsmála sem blasir við samfélaginu og þá staðreynd að tekjur ríkissjóðs munu núna og hafa verið að dragast saman. Skuldirnar eru að stórhækka og það er alveg ljóst að í ríkisrekstrinum þurfum við að gæta mikils aðhalds og því miður að skera niður á næstu mánuðum og árum. Það veldur mér því vissulega vonbrigðum að í frumvarpinu sem hér er mælt fyrir skuli ríkisstjórnin ekki kveða meira á um sparnað á eigin heimili, þ.e. í rekstri ráðuneyta ríkisstjórnarinnar. Það vakti líka dálitla athygli þegar þessi ríkisstjórn var mynduð í kjölfar síðustu kosninga að eitt af fyrstu verkefnum hennar var að fjölga ráðherrum um tvo. Það var nú upphafið að sparnaðaráformum ríkisstjórnarinnar að fjölga ráðherrastólunum.

Það er nú, frú forseti, ekki beint í samræmi við þau skilaboð sem ríkisstjórnin er að senda út til stofnana sinna, til skólanna, til heilbrigðisstofnana, þar sem verulegur samdráttur er fram undan og hagræðing því að að sjálfsögðu felst í því mikill útgjaldaauki fyrir ríkissjóð þegar ráðherrastólunum er fjölgað, það er mikið fyrirtæki sem fylgir hverjum og einum ráðherra. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra, í ljósi þess að hún hefur talað fyrir því að nú sé þörf á samvinnu og samstöðu um gríðarlegan sparnað í rekstri ríkissjóðs, hvers vegna hún flýti ekki þeirri vinnu að sameina og fækka ráðuneytunum, þannig mætti slá tvær flugur í einu höggi. Með því að sameina ráðuneytin og efla þau gætum við fengið skilvirkari stjórnsýslu og með því að fækka ráðherrum í ríkisstjórninni mætti ná fram einhvers konar hagræðingu að því leytinu til. Því hljótum við að spyrja hæstv. forsætisráðherra, sem er verkstjóri í ríkisstjórninni, hvenær það standi til á þeim bænum að fækka ráðherrastólunum á sama tíma og hinir sömu ráðherrar gera gríðarlegar aðhaldskröfur til stofnana á sínum vegum.

Það er mikilvægt að ríkisstjórnin vinni með öllum opinberum stofnunum þegar kemur að niðurskurði og í raun og veru gæti ríkisstjórnin gengið á undan með góðu fordæmi og byrjað á því að taka til heima hjá sér. Reyndar er búið að gefa það út að trúlega verði ráðherrum fækkað um tvo á kjörtímabilinu. Ég mundi gjarnan vilja vita, fyrst ekki er kveðið á um það hér, hvenær hæstv. forsætisráðherra, sem er verkstjóri í ríkisstjórninni, hyggist beita sé fyrir slíkum aðhaldsaðgerðum á þeim bænum.

Mig langar að nefna það að innan Framsóknarflokksins hefur verið unnin mikil vinna á undangengnum árum hvað það varðar að skoða hvernig stjórnskipulagi framkvæmdarvaldsins gæti verið háttað. Samband ungra framsóknarmanna gaf m.a. út skýrslu þar að lútandi. Nú síðast var gefin út skýrsla árið 2007, skýrsla stjórnarráðsnefndar Framsóknarflokksins, þar sem kveðið er á um ýmsa hluti, m.a. um fækkun ráðuneytanna, sem Framsóknarflokkurinn ætlaði að hafa sem forgangsverkefni í kjölfar síðustu kosninga hefði hann komist í aðstöðu til þess að gera fyrirkomulagið skilvirkara og fækka þar af leiðandi ráðherrum í ríkisstjórninni. Mig langar í þessu samhengi að vitna til þess sem ungir framsóknarmenn ályktuðu á sínum tíma í skýrslu sinni, með leyfi forseta:

„Í dag er ráðuneytum sem fara með atvinnumál skipt eftir einstökum atvinnuvegum. Sjávarútvegsráðuneytið fer með málefni útgerðar og fiskvinnslu, landbúnaðarráðuneytið fer með málefni landbúnaðarins, samgönguráðuneytið fer með málefni ferðaþjónustu og samgöngufyrirtækja, viðskiptaráðuneytið fer með málefni fjármagnsmarkaðarins og iðnaðarráðuneytið fer með málefni iðnaðar og orkugeirans. Þessi skipan er barn síns tíma þegar það tíðkaðist að ríkisvaldið gripi til sértækra aðgerða til að vernda tilteknar atvinnugreinar. Þessi skipan á hins vegar illa við þegar leitast er við að móta almenna atvinnustefnu þar sem ekki á að hygla hagsmunum tiltekinna atvinnugreina framar öðrum.“

Reyndar er það svo að hæstv. forsætisráðherra hefur boðað að stofna og setja á fót eitt atvinnumálaráðuneyti og lýsi ég yfir mikilli ánægju með það. Ég hefði þó haldið, eins og staða mála er í dag í íslensku samfélagi, að mikilvægt væri að hraða þeirri vinnu þannig að heildaryfirsýn fáist yfir atvinnugreinarnar hér á landi og menn geti í ljósi nýrra aðstæðna markað heildarstefnu gagnvart íslenskum atvinnuvegum og veitir svo sannarlega ekki af því á þeim tímum sem við lifum þessa dagana.

Frú forseti. Þrátt fyrir að ég hafi rætt hér áður um mikilvægi hagræðingar, sérstaklega hjá ráðuneytunum, hjá hinu opinbera, sem er nauðsynleg, hljótum við í þessari umræðu að velta því fyrir okkur, í ljósi þess með hvaða hætti framkvæmdarvaldið hefur haldið á málum á undangengnum vikum, hvort ráðherrar eigi samhliða sínum mikilvægu störfum að gegna störfum hér á Alþingi sem alþingismenn. Framsóknarflokkurinn hefur ítrekað ályktað um nauðsyn þess að koma á skýrari skilum á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds og mér er það til efs að á undangengnum vikum og mánuðum hefðu ráðherrar sem sækja umboð sitt til Alþingis en eru ekki jafnframt alþingismenn leyft sér að haga ákvörðunum sínum og samráðsleysi gagnvart Alþingi Íslendinga með þeim hætti sem raun ber vitni, sem er sorglegt.

Nýlegasta dæmið er í gærkvöldi þegar kjörnir alþingismenn hafa beðið hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni um aðgang að mikilvægum upplýsingum sem snerta stærstu ríkisábyrgð Íslandssögunnar, Icesave-skuldbindingarnar — ég var staddur í afmælisveislu norður í Skagafirði í gærkvöldi og þurfti að horfa upp á það þar hvað stendur í þessu samkomulagi þrátt fyrir að við alþingismenn höfum í hálfan mánuð farið fram á það við hæstv. ríkisstjórn að fá aðgengi að þessu samkomulagi. Alltaf var þessari leynd borið við og því var borið við að samningsaðilar okkar þyrftu að samþykkja slíkt. Ég spyr: Þurfti hálfan mánuð til þess hjá ríkisstjórninni að fá já eða nei frá samningsaðilum okkar vegna Icesave-skuldbindinganna um það hvort kjörnir fulltrúar íslensku þjóðarinnar fengju aðgengi að slíkum upplýsingum? Mér er það til efs, og ég endurtek það enn og aftur, að ráðherrar sem ekki eru alþingismenn og sækja sitt umboð til þingsins og hafa þar ekki atkvæðisrétt, mundu haga sér með viðlíka hætti. Mér er það reyndar líka til efs að framkoma sem þessi gagnvart löggjafarþingi hverrar þjóðar mundi viðgangast í einhverju öðru vestrænu samfélagi.

Við erum komin að endimörkum þess að horfa upp á það að framkvæmdarvaldið traðkar í hverju málinu á fætur öðru á löggjafarsamkundunni sem á að veita framkvæmdarvaldinu umboð til starfa. Það er framkvæmdarvaldið sem á að sækja umboð sitt til Alþingis, það er ekki Alþingi sem á að hlusta á fréttir og blaðamannafundi ráðherra í ríkisstjórninni um það hvað Alþingi eigi að samþykkja eftir tiltekna daga eða vikur.

Þessum tímum þarf að ljúka. Við þurfum að hætta þessum vinnubrögðum og ég velti því fyrir mér hvort alþingismenn og hæstv. ráðherrar, eins og Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, hæstv. fjármálaráðherra, sem hafa setið hér á Alþingi um áratugaskeið og þekkja einfaldlega ekki vinnubrögð af annarri tegund en þessari — hvort ekki þurfi aðra kynslóð af stjórnmálamönnum til þess að innleiða vinnubrögð af þessu tagi.

Þeir tímar eru liðnir í íslensku samfélagi að Alþingi Íslendinga taki við einhverjum skipunum frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar og hlusti á mikilvægar upplýsingar eins og öll þjóðin í fjölmiðlum. En nú megum við þakka fyrir það, þingmenn stjórnarandstöðunnar, að fá aðgang að leyndarhjúpi Icesave-samninganna. Og hvers vegna? Jú, vegna þess að þeim var lekið í fréttir Ríkisútvarpsins í gærkvöldi. Ef Ríkisútvarpið hefði ekki náð þessum upplýsingum í gær værum við trúlega enn hér að ræða um fundarstjórn forseta og af hverju við fengjum ekki aðgang að þessum samningum. En ríkisstjórnin neyðist nú, í ljósi þess að fjölmiðlar hafa komist yfir þetta samkomulag, til að gjöra svo vel að sýna okkur þingmönnum, hvort sem það er í stjórn eða stjórnarandstöðu, út á hvað þetta samkomulag gengur.

Ég vil hér í umræðum um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands ræða það að við þurfum ný og breytt vinnubrögð. Við köllum á það að ríkisstjórnin taki fyrst til heima hjá sér þegar kemur að hagræðingu í opinberum rekstri og við hljótum að spyrja forsætisráðherra að því hvernig stóð á því í kjölfar síðustu kosninga að fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var að fjölga ráðherrastólunum um tvo? Í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra hefur nú á sumarmánuðum sagt að staðan í ríkisfjármálum og í samfélaginu væri miklu verri en menn hefðu gert sér grein fyrir stendur þá ekki upp á ríkisstjórnina að grípa til erfiðra ákvarðana innan sinna raða, stuðla að hagræðingu hjá hinu opinbera þó ekki væri nema með því að hafa ráðherrana jafnmarga og þeir voru fyrir síðustu alþingiskosningar hjá þeirri ríkisstjórn sem við framsóknarmenn veittum hlutleysi okkar. Það er mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, svari þessum spurningum hér.

En annars vil ég segja um frumvarpið sem við ræðum hér: Það eru vissulega ákveðin mál í þessu sem ég hlýt að fagna og styðja. En mér finnst einfaldlega ekki tekið á stóru heildarmyndinni. Hvernig á að spara í rekstri hins opinbera? Það er alveg örugglega ekki með því að fjölga ráðherrum í ríkisstjórn Íslands.

Ég vona að hæstv. forsætisráðherra komi þá inn á það hér, væntanlega í seinni ræðu sinni, hvernig hún sjái það til framtíðar litið að við skiljum í rauninni á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Það fyrirkomulag að ráðherrar gegni starfi alþingismanns og starfi ráðherra er að mínu viti orðið barn síns tíma, sérstaklega í ljósi þess hvernig sömu hæstv. ráðherrar koma fram gagnvart þingmönnum á Alþingi Íslendinga. Mér finnst það sorglegt, frú forseti, hvernig stjórnarliðar, og þá sérstaklega nýir þingmenn í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, virðast taka hlutskipti sitt, þ.e. að þeir taki við skipunum frá ráðherrum í ríkisstjórninni.

Ég ætla að minna á það í þessu samhengi að í fréttum Ríkisútvarpsins fyrir hálfum mánuði staðfestu nokkir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að þeir mundu styðja við undirskrift íslenska ríkisins, þ.e. fjármálaráðherrans, gagnvart Icesave-skuldbindingunum, að þeir mundu bara styðja það án þess að hafa séð hvaða gögn liggja þar að baki. Mér þykir það nú þrælslund af hálfu þingmanna Vinstri grænna í þessari umræðu að lýsa yfir stuðningi við eitthvert mál sem þeir hafa efnislega ekki hugmynd um út á hvað gengur — þeir hafa ekki hugmynd um hversu verðmætt eignasafn Landsbankans er í Bretlandi, þeir ætla bara að samþykkja það sem ríkisstjórnin leggur fram. Þetta er áhyggjuefni, verulegt áhyggjuefni, og það er skiljanlegt að samtök á borð við Indefence og almenningur hér á landi skuli lýsa algjörri andstöðu við vinnubrögð af þessu tagi. Þetta er eitthvað sem við þurfum að uppræta.

Því miður horfum við upp á það að ríkisstjórnin, sem nú hefur setið í einn og hálfan mánuð, ætlar sér að sitja í tólf ár, samkvæmt upplýsingum sem við fengum frá hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég vona fyrir hönd íslensks almennings að við þurfum ekki að horfa upp á vinnubrögð sem þessi næstu tólf árin hér í vestrænu siðuðu samfélagi þar sem stjórnvöld sækja sér vanalega umboðið til þjóðþings viðkomandi þjóðar, til fólks sem hefur verið kjörið til þess að taka ákvarðanir. Við þurfum að fara að koma hlutunum í það horf að Alþingi Íslendinga hafi völdin svo að þingmenn þurfi ekki að hlusta á fréttamannafundi frá ráðherrum í ríkisstjórninni sem gera grein fyrir því hvernig þeir ætli að hafa þetta — þingið skal svo bara gjöra svo vel að samþykkja það sem hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, og hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hafa ákveðið. Slíkt er ekki líðandi og við, þingmenn Framsóknarflokksins, munum ekki vera slíkar gungur og druslur, svo að ég nefni nú þau frægu orð, að sitja undir vinnubrögðum sem þessum.