137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[16:04]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég taldi mig hafa talað nokkuð skýrt varðandi Icesave. Það sem ég sagði við hv. þm. Birki Jón Jónsson er að á umræddum þingflokksfundi gaf þingflokkurinn heimild til þess að gengið yrði frá þessum samningum. Varðandi hámark á því sem íslenskur almenningur á að taka á sig og það að skorið skuli úr þessu fyrir breskum dómstólum segi ég bara það sem ég hef sagt áður, að ég hef ekki sagt hvort ég muni styðja þetta eða ekki. Ég hef talað um að það sé mikilvægt að öll gögn komi til þingsins í þessu máli. Þau gögn sem þú vitnar í eru gögn sem RÚV hefur undir höndum og þingmenn fá í þinginu þegar frumvarpið verður lagt fram og þá tökum við málefnalega umræðu um þetta en ekki núna því að þú ert að vitna þarna til gagna sem ekki hafa verið lögð fram í þinginu. Þegar þau koma fyrir þingið tökum við um þetta málefnalega umræðu.

Varðandi ESB-aðild þá held ég að það hafi tíðkast áður í sögunni að ekki styðji allir þingmenn stjórnarfrumvörp. Það segir ekkert um stuðning minn við ríkisstjórnina í heild sinni enda gerði ég fyrirvara um það við myndun ríkisstjórnarinnar að ég mundi hvorki styðja þetta mál í þinginu né tala gegn því úti í samfélaginu alls staðar þar sem ég kæmi. Það breytir engu um stuðning minn við ríkisstjórnina.