137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[16:10]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur orðið um þetta mál þó að hún hafi aðeins farið út fyrir efnið eins og fram kom hjá síðustu ræðumönnum.

Ég held, miðað við þær undirtektir sem málið hefur fengið, að flestir séu á því að hægt sé að hagræða og skipuleggja betur innan Stjórnarráðsins enda hefur það verið á borðinu hjá ýmsum ríkisstjórnum að skoða hvað hægt væri að gera í þessum efnum. Ég held að með því frumvarpi sem hér er lagt fram sé tekið á ýmsum málum sem lengi hafa raunar verið til skoðunar í ráðuneytunum. Ég nefni t.d. að ýmislegt varðandi nýsköpun og hagræðingu í ríkisrekstri hefur verið til skoðunar í fjármálaráðuneytinu í mörg ár. Innan þess ráðuneytis hefur starfað sérfræðingur sem hefur skoðað það mál og verið með margar hugmyndir á borðinu sem við höfum sannarlega tekið til skoðunar í þessu verkefni og sjá má stað í þessu frumvarpi þó að sjálfstæðismenn hafi ekki hrint þeim í framkvæmd á sinni tíð. Ég held að margar þeirra séu til verulegra bóta.

Af því að hér var spurt um við hvern haft hafi verið samráð í þessu efni vil ég segja að haft var samráð við ýmsa aðila í ráðuneytunum og stofnunum sem þekkja vel til þessara mála og nýttar voru margar athyglisverðar hugmyndir og tillögur sem þar hafa komið fram. Ég vil þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að nefna þá vinnu sem framsóknarmenn hafa einmitt lagt í það að vinna hugmyndir og tillögur að endurskipulagningu á Stjórnarráðinu. Það er auðvitað sjálfsagt að hafa þær til skoðunar og hliðsjónar í þeirri vinnu sem er fram undan í þessu efni vegna þess að henni er hvergi nærri lokið jafnvel þó að þetta frumvarp sé í höfn.

Það er mikið spurt um sparnað og hagræðingu vegna þessa máls. Ég kom inn á það í ræðu minni og það þekkja allir að fyrsta kastið þegar farið í svona hagræðingu og breytingar þá skilar það ekki sparnaði og stundum auknum útgjöldum en menn sjá til lengri tíma litið að muni skila sparnaði. En það er alveg ljóst, og ég held að engum blandist hugur um það, að miðað við þær miklu breytingar sem hér er verið að fara í þá skilar það sparnaði til lengri tíma litið.

Nokkuð hefur verið spurt um það af hverju verið er að búa til efnahagsráðuneyti og af hverju þessi mál eigi ekki að vera áfram hjá forsætisráðuneytinu. Það er auðvitað skoðun út af fyrir sig en ég held að þegar menn horfa til reynslunnar og til þeirrar skýrslu sem finnski sérfræðingurinn Jännäri gerði í þessu efni þá taldi hann rétt að hafa þessi mál á einum stað í einu ráðuneyti. Við þær breytingar sem við höfum gert í þessu efni var horft til Danmerkur sem er þekkt fyrir vandaða stjórnsýslu og sterka stöðu efnahagsmála en þar er fyrirkomulagið með þessum hætti. Ef þessu er betur komið fyrir með þessum hætti, burt séð frá því hver gegnir stöðu forsætisráðherra, þá held ég að við eigum að horfa til þess, enda er reynslan kannski ekki mjög góð þegar litið er til undanfarinna ára að hafa málin með þeim hætti sem þau hafa verið í, t.d. í forsætisráðuneytinu þar sem Seðlabankinn heyrir undir o.s.frv. Að athuguðu máli held ég að skynsamlegt sé að gera þetta með þessum hætti.

Hér var m.a. rætt og ríkisstjórnin gagnrýnd fyrir það að hafa ekki gagnsæi í störfum sínum, leyna upplýsingum o.s.frv. Ég held að það sé alveg ljóst að ekki er hægt að brigsla þessari ríkisstjórn um að vera með einhverja leyndarhyggju varðandi gögn sem hún getur gert opinber. Hún hefur gert öll þau gögn opinber, ég hef lagt mig fram um það í mínu ráðuneyti að gera þau gögn opinber sem hægt er, m.a. um einkavæðingu í ríkisrekstri sem ekki höfðu verið gerð opinber, um einkavæðingu bankanna o.s.frv. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson talaði mikið um að skoða þyrfti betur skil milli ríkisvaldsins og framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins. Ég alveg sammála honum í því og hef flutt margar tillögur um það, en ég minni samt hv. þingmann á það og get ekki setið á mér í því efni, að Framsóknarflokkurinn hefur verið ansi lengi við stjórnvölinn þar sem maður þurfti að búa mjög við það að það var ýmislegt sem fékkst ekki upp á borðið. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður verður líka að geta hlustað á forsöguna í þessu efni þar sem Framsóknarflokkurinn var við stjórnvölinn síðastliðin 12 ár þegar ýmislegt var gert í sambandi við einkavæðingu á bönkunum sem var ekki mjög gott að fá upp á borðið þegar kallað var eftir upplýsingum, m.a. til að geta tekið ákvörðun um það hvort það væri rétt og skynsamlegt að hlutafélagavæða bankana. Ég gæti vitnað hér í mörg svör sem ég hef fengið frá fyrrverandi viðskiptaráðherra bæði varðandi bankana og þá leynd sem þar hvíldi yfir og varðandi ýmsar upplýsingar sem maður var að kalla eftir hjá Fjármálaeftirlitinu og menn skýldu sér alltaf á bak við álitsgerð sem stjórnarflokkarnir létu gera hjá lögfræðingi um að það væri ekki hægt að fá þessar og hinar upplýsingar af því að búið væri að hlutafélagavæða bankana. Það var ekki mjög gott að fá upplýsingar um ýmislegt sem þar var kallað eftir. Mér finnst bara ástæða til að nefna það af þessu tilefni sem hér var gefið að það var ýmislegt í tíð fyrri ríkisstjórna sem draga má fram í þessu sambandi þegar menn kjósa að kalla það fram hér að núverandi ríkisstjórn sé að leyna gögnum eða vilji ekki upplýsa um hlutina o.s.frv.

Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, 9. þm. Norðvest., sem er nú ekki í þingsal, var með ákveðnar skoðanir að því er varðar jarðamálin og fyrirkomulag á þeim málum þar sem verið er að flytja umsýslu á eignum ekki bara úr ráðuneyti landbúnaðarmála yfir í fjármálaráðuneytið heldur er svo víða. Hugmyndin að baki því hefur kannski lengi vakað og lengi verið rædd að umsýsla eigna sé á einum stað enda þótt stefnumörkun t.d. varðandi nýtingu lögbýla verði áfram undir stjórn landbúnaðarráðherra. Það sama á við um annað sem hann nefndi að þó að umsýsla eignahluta flytjist til fjármálaráðuneytisins varðandi Íslandspóst mun stefnumörkun áfram verða undir samgönguráðuneytinu. Ég held að það fáist betri yfirsýn að hafa umsýslu eigna á einum stað þannig að hægt sé að hafa heildaryfirsýnina og þar með hagkvæmnina í sem bestu formi að því er þetta varðar.

Spurt var, sem ég ætla sannarlega að svara, hvort fjölga ætti ráðherrum og það sé ekki sparnaður fólginn í því. Það er alveg rétt að ráðherrum var fjölgað úr tíu í tólf. Við verðum að muna eftir því að þegar ráðherrarnir voru tíu — þeir voru nú tólf lengst af eða var ekki svo allan tímann í tíð framsóknarmanna og sjálfstæðismanna? — þá var það í minnihlutastjórn Samfylkingar og VG sem voru tíu ráðherrar. Á þessum kannski erfiðustu tímum sem þjóðin gekk í gegnum voru tíu ráðherrar sem varð til þess að a.m.k. tveir ráðherrar þurftu að gegna tveimur þungum ráðuneytum á sama tíma, þar af fjármálaráðherra fjármálaráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti. Sömuleiðis var utanríkisráðherra með iðnaðarráðuneytið. Þó að það gangi í stuttan tíma að gera þetta með þeim hætti að hafa tvö erfið ráðuneyti undir stjórn eins og sama ráðherrans gengur það ekki til lengri tíma. Því var þetta ákveðið til að byrja með í þeirri nýju ríkisstjórn. Engu að síður er stefnumörkunin alveg skýr og ljós í þessu. Það er sérstaklega sameiningin á atvinnuvegaráðuneytunum sem ég vona að geti gerst fyrr en seinna og þá mun það fylgja um leið að ráðuneytum fækkar. Sömuleiðis leiðir það sjálfkrafa til fækkunar á ráðuneytum þegar sameinað verður dóms- og kirkjumálaráðuneytið og samgönguráðuneytið og því mega menn ekki gleyma þegar þeir setja þetta fram sem gagnrýnispunkt í þessu máli.