137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[16:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir síðari ræðuna. Ég verð þó að segja að ekkert sem kom fram í máli hennar gerir það að verkum að ég styðji málið frekar en varð við fyrsta lestur á frumvarpinu þó að ég vilji alls ekki halda því fram að það sé alslæmt og held að í því séu ýmsar hugmyndir sem vel geta átt rétt á sér. Ég vil samt hafa allan fyrirvara á þessu máli og tel að það þurfi góða og yfirvegaða meðferð í þinginu til þess að hægt sé að átta sig á því hvaða rökstuðningur er á bak við einstaka tillögur þarna og hvernig þessum málum verði best háttað.

Ég sakna þess enn að málið skuli ekki vera tekið heildstætt, þ.e. að það skuli ekki vera farið yfir sviðið í heildinni og lögð fram tillaga um heildstæða endurskoðun á Stjórnarráðinu. Jafnvel þótt það hefði þurft að bíða einhverjum mánuðum lengur þá sé ég ekki að það hefði verið skaði ef niðurstaðan hefði orðið heildstæð uppstokkun á Stjórnarráðinu sem hefði getað leitt til sparnaðar og hagræðingar.

En ég ítreka það sem kom fram í máli mínu áðan að í þessu frumvarpi er ekkert sem leiðir til sparnaðar og það er ekkert í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins sem gefur til kynna að hagræðingarsparnaður muni nást til framtíðar. Það er bara vísað til þess í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins að þarna sé um að ræða tilflutning verkefna en ekki verið að draga úr verkefnum með neinum hætti eða ná fram sparnaði öðruvísi.

Ef hæstv. forsætisráðherra hefur einhverjar hugmyndir um að það megi ná fram sparnaði með þessu frumvarpi eins og það lítur hér út þá hefur fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins greinilega sést yfir það. Því ella hefði sú ágæta skrifstofa væntanlega getið þess í kostnaðarmati sínu, ef hún hefði ímyndað sér að einhver hagræðing kæmi fram eða sparnaður næðist með þessu til framtíðar litið.