137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[16:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins. Alveg er hreint með ólíkindum að ég sem nýr þingmaður þurfi að hlusta á málatilbúnað hæstv. forsætisráðherra eins og hann er settur hér fram. Hér fór flokkur hæstv. forsætisráðherra fram með miklum gassagangi fyrir kosningarnar og talaði um gegnsæi, lýðræðisleg vinnubrögð og opna stjórnsýslu.

Nú hefur hæstv. forsætisráðherra enn einu sinni dottið í þá gryfju að fara að velta Framsóknarflokknum upp úr fortíð sinni. Við getum alveg staðið frammi fyrir fortíðinni og horfst í augu við hana, hæstv. forsætisráðherra, en við erum að tala um núið hér á Íslandi, það skiptir máli hvernig við sem þjóð ætlum að koma okkur út úr þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir. Að mínu mati var margt gert rangt í fortíðinni en fortíðinni breytum við ekki en á framtíðina getum við haft áhrif.

Einn þáttur í hruninu var jafnvel sú aðgerð þegar Samfylkingin fer í ríkisstjórn á sínum tíma — minni á það að Samfylkingin hefur nú setið í þremur ríkisstjórnum. Þegar Samfylkingin fer í fyrsta sinn í ríkisstjórn sem fullburða stjórnmálaflokkur voru settar fram svo miklar kröfur um það að breyta og færa til verkefni innan Stjórnarráðsins, það er jafnvel einn þáttur í því hvers vegna hrunið var svona alvarlegt. Það er mjög hagstætt fyrir vanhæf stjórnvöld að hafa stjórnsýsluna svo veikburða og ruglaða að enginn veit hvað hann á að gera eða hvað er hvers og hvað hver á að gera.

Ég minni hæstv. forsætisráðherra á það að Samfylkingin hefur setið í þremur ríkisstjórnum. Ef við erum að tala um fortíð, eins og verið er að tala hér um, þá er það líka fortíð þó að fortíðin sé kannski örlítið yngri en fortíð Framsóknarflokksins í ríkisstjórn.