137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[16:32]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli síðasta ræðumanns á því að með því frumvarpi sem við erum að ræða hér, um breytingar á Stjórnarráðinu, þá erum við að styrkja verulega stjórnsýsluna og veitti ekki af. Við höfum nú farið í gegnum það að það var nauðsynlegt að gera það með þeim hætti sem hér er lagt til.

Ég held að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir — þó að hún sé ný hér inni sem kosinn þingmaður þá er hún enginn nýgræðingur í pólitík. Eftir því sem ég best veit hefur hv. þm. Vigdís Hauksdóttir lengi verið starfandi innan Framsóknarflokksins og vitað hvað þar hefur farið fram. Það er bara með þeim hætti, þó að hv. þingmaður vilji ekki hlusta á fortíð Framsóknarflokksins og (Gripið fram í.) sögu hans hér í þingsölunum, þá held ég að hún neyðist til þess að hlusta á hana. Fortíð Framsóknarflokksins að því er varðar einkavæðingu bankanna, ég segi bara, virðulegi forseti: Guð hjálpi mér. Ekki hefði ég viljað vera með þá forsögu í eftirdragi að hafa staðið þannig að einkavæðingu bankanna eins og Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn gerðu. (Gripið fram í.)