137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[16:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði í ræðustól hér áðan að ég gæti algjörlega horfst í augu við fortíð Framsóknarflokksins. Framsóknarflokkurinn er öflugur og stöndugur flokkur og hann er atvinnumálaflokkur fyrst og fremst og hefur þurft að taka á í gegnum tíðina, hvort sem hann hefur verið í stjórnarandstöðu eða stjórn, með það að bera hag þjóðarinnar fyrir brjósti sem núverandi ríkisstjórn gerir alls ekki. Hér er verið að binda þjóðina á skuldaklafa og hæstv. forsætisráðherra verður að horfast í augu við það.

Varðandi það að með frumvarpinu sé verið að styrkja stjórnsýsluna — ég hef einungis orð hæstv. forsætisráðherra fyrir því. Það er margt ansi illa rökstutt í þessu frumvarpi og eins og annað eru það orð forsætisráðherra sem eru lög í þessu landi. Áður en búið er að afgreiða hér lagafrumvörp eða samþykkja nokkurn hlut, þegar hæstv. forsætisráðherra talar er það það sem gildir og ekkert annað.