137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[16:35]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég réði nú ein ferðinni væri landið eitthvað öðruvísi en það er í dag, en því miður er það ekki svoleiðis.

Ég vil líka segja, af því að hv. þingmaður talar um að Framsóknarflokkurinn sé atvinnumálaflokkur, hvaða flokkur er ekki atvinnumálaflokkur? Ég vildi gjarnan að Framsóknarflokkurinn hefði verið meiri velferðarflokkur þegar hann stjórnaði hér í tólf ár. Það er hörmulegt til þess að hugsa að þegar við vorum í uppsveiflu í efnahagslífinu, með kannski 80 milljarða afgang á ríkissjóði, leyfði Framsóknarflokkurinn sér að standa við hlið Sjálfstæðisflokksins og vinna að því að láta þetta velferðarkerfi drabbast niður. (Gripið fram í.) Ef það hefði ekki drabbast svona niður í (Gripið fram í.) tíð Framsóknarflokksins værum við betur stödd í að mæta þessari erfiðu efnahagskreppu sem við erum að reyna að vinna á. En við erum með þessa fortíð — Framsóknarflokkurinn ber vissulega þunga byrðar hvað það varðar að standa þannig að málum að velferðarkerfið drabbaðist niður. (Gripið fram í.)