137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

upplýsingar um Icesave-samningana.

[18:30]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Bhr):

Virðulegi forseti. Við erum hér saman komin í kvöld vegna skelfilegs samkomulags íslenskra stjórnvalda við Breta og Hollendinga um greiðslur innstæðna á Icesave-reikningum Landsbankans. Mér er málið skylt, verið er að velta skuldum einkaaðila yfir á almenning og þar með mig, alla þá sem hér sitja, fólkið í landinu og jafnvel ófædd börn. Ég stofnaði ekki til þessara skulda og mér finnst ekki að ég eða börnin mín eða barnabörn eða nokkur annar hér á landi eigi að greiða þær. Þetta er bara algjört prinsippmál.

Við verðum að ljúka þessum málum með einhverjum hætti, ég get alveg tekið undir það. Bjóðum Bretum og Hollendingum allar eignir Icesave og fáum aðstoð þeirra við að negla þá sem komu okkur í þessa stöðu. Þeir eiga öflugar eftirlitsstofnanir, þeir eiga leyniþjónustu, þeir eiga ýmis úrræði sem við höfum ekki yfir að ráða, og eins og við höfum komist að og hæstv. ríkisstjórn, eru þeir mjög harðir í samningum sem við erum greinilega ekki.

Hér erum við að tala um ríkisábyrgð. Ég var að ræða við sérfræðing í Evrópurétti sem segir að það sé alls ekki víst að ríkið eigi að bera ábyrgð á þessum samningum og við verðum að skoða þetta betur og gefa okkur lengri tíma í þetta. Krafa Breta og Hollendinga er algjörlega skiljanleg en það er ógerlegt fyrir Alþingi að ganga að öllum kröfum þeirra. Ríkisstjórnin vill ekki fara með málið fyrir dómstóla og rökstyður það ekki frekar. Af hverju ekki? Við verðum að fá að vita það. Við getum ekki flýtt okkur svona mikið, við getum ekki tekið alla áhættuna á okkur vegna þess að ef þetta er einhver hluti, þótt það sé ekki nema lítill hluti, getum við ekki borgað þetta, það er svo einfalt. Eignirnar eru ótryggar, sérstaklega í því árferði sem er núna, og það er ætlast til þess að við tökum á okkur alla áhættuna. Það er miklu heiðarlegra að horfast í augu við það núna áður en skrifað er undir þennan samning og skrifa hreinlega ekki undir hann. Ef við skrifum undir hann getum við hugsanlega farið í nauðasamninga eftir sjö ár en þá mun ekki standa til boða að leita til alþjóðlegra dómstóla. Við verðum að skoða þetta betur og við verðum að fá hæft fólk í samninganefndina. Ísland er gömul nýlenda og við erum að semja við rótgróna nýlenduherra sem hafa ekki hlíft nýlendum sínum í gegnum tíðina. Ætlum við að gerast nýlenda þeirra?

Mér barst í dag íslensk þýðing á grein 16.3 í samningnum við Hollendinga, það er Magnús Thoroddsen hæstaréttarlögmaður sem þýddi hana og, með leyfi forseta, langar mig að lesa hér byrjun greinarinnar.

Fyrirsögnin er: Afsal á griðhelgi fullveldis.

„Bæði tryggingasjóðurinn og Ísland samþykkja algerlega hvers konar málsókn gegn sér í sambandi við hvaða deiluefni sem upp kunna að koma og hvers konar annað réttarúrræði gegn sér, þar á meðal aðför eða fjárnám, í hvaða eignum eða réttindum án tillits til hvaða nota þau eru ætluð samkvæmt hvers konar úrskurði eða dómi.“

Þetta er algjört afsal á fullveldinu. Svona semja evrópsk lýðræðisríki ekki. Því miður eru mörg Afríkuríki og þriðja heims ríki í þeirri stöðu að svona samningar eru þar daglegt brauð en þetta hefur ekki viðgengist í okkar heimshluta. Þýðir þetta t.d. það að flugvélar Icelandair, sem nú eru í ríkiseigu, verði gerðar upptækar við lendingu í Evrópu, íslensk skip sem sigla til Evrópu, verða þau gerð upptæk þar? Í þessu hafa ýmsar skuldugar þjóðir með ríkisflugfélög lent, t.d. Tyrkir.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir hugrekki fyrir Íslands hönd. Við mótmælum öll.