137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

upplýsingar um Icesave-samningana.

[18:43]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að vitna til greinar eftir Stefán Má Stefánsson lagaprófessor og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmann sem var skrifuð í Morgunblaðið 12. júní sl. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Samninganefnd Íslands hefur skilað sínu verki. Forsendan í starfi hennar virðist hafa verið sú að okkur bæri skylda til að greiða og því ekki annað að gera en að semja um greiðslukjör. Þessi nálgun er hvorki í samræmi við þá þingsályktun sem samþykkt var þann 5. desember sl. á Alþingi né þá kynningu sem fram fór á hlutverki samninganefndarinnar þegar hún var skipuð. … Ef til eru lögfræðileg rök fyrir þeim niðurstöðum sem samninganefndin hefur samið um, þá verður að kynna þau. … Séu niðurstöður samninganna byggðar á pólitískum sjónarmiðum, t.d. vegna mögulegrar aðildarumsóknar Íslands að ESB, eða beinum eða óbeinum þvingunum, verður að upplýsa það. Síðan verða þingmenn að taka upplýsta ákvörðun um hvort þau sjónarmið réttlæti skuldsetningu þjóðarinnar sem hljóða upp á óvissar en gríðarlegar fjárhæðir þrátt fyrir að lögfræðileg rök hnígi í aðra átt.“

Þess vegna er spurt: Hver voru þau markmið sem ríkisstjórnin, sem tók við þessu máli 1. febrúar, setti samninganefndinni undir forustu Svavars Gestssonar? Það er eðlilegt að svo sé spurt, ekki síst í ljósi orða þáverandi hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og hæstv. fjármálaráðherra í dag sem borið hefur ábyrgð á úrvinnslu þessa máls hátt á fimmta mánuð. Einungis viku áður en hann tók við forræði málsins taldi hann að samningarnir um Icesave væru bæði riftanlegir og ógildanlegir nauðasamningar og enn væri unnt að afstýra stórslysi fyrir íslenska þjóð. Nú er þessi sami stjórnmálamaður borinn þeim sökum að hafa blekkt íslenska kjósendur þegar hann leggur fyrir Alþingi, og óskar eftir staðfestingu alþingismanna á, plagg sem hann sjálfur gaf nafn við hæfi, nauðasamningar fyrir íslenska þjóð.

Hæstv. ráðherra fjármála hefur reynt að halda því fram að hann hafi tekið við þessu máli fullbúnu og niðurstaðan hafi svo að segja verið gefin fyrir fram. Svo langt ganga forustumenn ríkisstjórnarinnar í því að segjast vera bundnir af fyrri vinnu að hæstv. forsætisráðherra leyfir sér að halda því fram opinberlega að hún treysti því að sjálfstæðismenn muni styðja nauðasamninginn á þingi í ljósi forsögunnar.

Í þessum efnum eru margar skoðanir. Fróðlegt er að lesa álit lögfræðingsins sem var aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þegar átökin um þessi mál stóðu sem hæst, en Kristrún Heimisdóttir hefur m.a. haldið því fram að staðreyndin væri sú að ný ríkisstjórn er við tók hefði hæglega getað snúið við ákvörðunum fyrri ríkisstjórnar um Icesave-samningana hefði verið pólitískur vilji fyrir því. Forræði á Icesave-samningnum hefur verið hjá fjármálaráðherra í öllum ríkisstjórnum sem starfað hafa á þessum erfiða vetri og núverandi ráðherra og flokkur hans hefur sama frjálsa svigrúmið til ákvarðana og aðrir höfðu á undan að mati Kristrúnar Heimisdóttur.

Það er ekkert undarlegt þó að alþingismenn í þessu landi og almenningur allur hafi ríka fyrirvara á afstöðu sinni til þessa máls þegar það er borið á borð fyrir fólk með þeim hætti sem raun ber vitni. Að sjálfsögðu gera allir sem þessu máli tengjast sér fullkomlega grein fyrir alvarleika og innihaldi þess. En það er grundvallaratriði að áður en ætlast er til þess að Alþingi Íslendinga taki afstöðu til þess nauðasamnings sem ríkisstjórnin hefur nú loksins, fyrir örfáum mínútum, kynnt þingmönnum, hafi alþingismenn fengið þær upplýsingar sem þörf er á svo þeir geti tekið upplýsta afstöðu til viðfangsefnisins. Grunnspurningin sem hver og einn alþingismaður stendur frammi fyrir og þarf að svara á næstu vikum er sú hvort hann sé tilbúinn til þess að ríkissjóður taki ábyrgð á 600–750 milljarða skuld sem (Forseti hringir.) einkaaðilar stofnuðu til.