137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

upplýsingar um Icesave-samningana.

[18:52]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar. Við höfum legið yfir þessum samningi eins og mögulegt er á þeim örfáu mínútum sem við höfum haft síðan við fengum hann í hendurnar. Að okkar mati hefur ríkisstjórn Íslands einfaldlega lagst í duftið og brugðist þjóðinni og er þá kannski vægt til orða tekið.

Ríkisstjórn og þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna hafa tekið þann kost og munu gera það nánast hver og einn að velta skuldum einkaaðila, svokallaðra útrásarvíkinga, yfir á almenning í landinu sem stofnaði ekki til þeirra skulda. Það er algjörlega óásættanlegt. Það er algjörlega óréttlátt og algjörlega siðlaust. Mér býður einfaldlega við þeirri hugsun að menn vogi sér að taka slíkar ákvarðanir og velta þessu yfir á almenning í landinu, á börnin okkar og barnabörnin. Hvernig vogið þið ykkur að gera það? Hvers konar hugsun býr eiginlega að baki?

Það er ekki verið að gera neitt sem mark er á takandi til þess að elta þá menn sem stofnuðu til þessara skulda. Þeir eru enn þá að afgreiða sjálfa sig um tugi milljóna út úr einhverjum lagakrókum og einkalífeyrissjóðum til þess að skemmta sjálfum sér á meðan verið er að leggja hér fram bandorm sem sýnir alveg greinilega hvernig allur íslenskur „infrastrúktúr“ mun molna niður á næstu árum fyrir framan augu okkar vegna þess að sumir þingmenn ætla að nota peninga þjóðarinnar til þess að borga skuldir einkaaðila. Skammist þið ykkar! Skammist þið ykkar fyrir að láta ykkur detta þetta í hug og það meira að segja sennilega að óþörfu.

Við höfum heyrt hér mat Stefáns Más. Við vorum með einn fremsta sérfræðing landsins í Evrópurétti, Elviru Pineda, hjá okkur áðan sem heldur því alveg hiklaust fram að það sé fyllilega sanngjarnt að Ísland láti reyna á þetta mál fyrir Evrópudómstólnum. Evrópudómstóllinn hefur þegar kveðið upp dóm í sambærilegu máli þar sem kom skýrt fram að það er ekki sjálfkrafa ríkisábyrgð þegar svona stendur á. Hér er ekki hlustað á það, 700 milljarðar kr. skuld og það er ekki hlustað á það. Hvers konar eiginlega virðing er það fyrir landi og þjóð sem þessi ríkisstjórn ber? Þetta er svo skammarlegt að mér verður orðfall, ég verð að viðurkenna það. En þetta er eitthvað sem íslensk stjórnvöld, þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna, þora ekki að láta reyna á.

Eins og kom fram áðan hjá hv. þm. Gunnari Braga, sem stal nú frá mér glæpnum, hafa orðin gunga og drusla verið sögð hér úr þessum stól og það af mun minna tilefni. Þau er nú hægt að herma upp á þá þingmenn alla sem styðja þennan samning, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) gunga og drusla. Skammist þið ykkar!

Samfylking og Vinstri grænir munu velta 700–1000 milljörðum króna yfir á íslenskan almenning án þess að hafa fengið upplýsingar um þær eignir sem komið hafa á móti. Samninganefndarmaðurinn sem kom á fund okkar áðan hafði ekki séð eignasafnið. Hvar er réttlætið? Hverjir hafa verið handteknir? Hvaða eignir hafa verið frystar? Rannsóknarnefnd Alþingis er í uppnámi vegna þess að íslenskir embættismenn eru að agnúast út í eina alvörusérfræðing nefndarinnar. Rannsókn sérstaks saksóknara er í uppnámi vegna þess að hann veldur ekki verkefninu. Hann er skipaður af dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins sem ber meginábyrgð á því sem gerðist og það er ekki hnikað við manninum. Hvers konar (Forseti hringir.) hugsun er eiginlega hér að baki? Hvers konar virðing og hvers konar ætlan er í gangi hjá þeirri ríkisstjórn og þeim þingmönnum sem standa (Forseti hringir.) fyrir þessu? Svo ég ljúki nú máli mínu pent eina ferðina enn: Skammist þið ykkar bara. Skammist þið ykkar!