137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[19:57]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi sem færir fleiri forstöðumenn sem núna eru orðnir ríkisstarfsmenn undir kjararáð. Það hefur nefnilega verið þannig á undanförnum árum að stjórnir ýmissa ríkisfyrirtækja hafa umbunað þessum forstöðumönnum ríkulega fyrir árangur í starfi sem hreinlega gufaði upp eftir bankahrunið.

Þetta frumvarp felur í sér skipulagsbreytingu sem ætti, ef rétt er á málum haldið, að leiða til kjarajöfnunar og færa hæstu laun í opinbera geiranum niður. Slíkt mun hafa þau áhrif að kynbundinn launamunur mun minnka þar sem karlar eru miklu oftar forstöðumenn hjá ríkinu eða hjá hinu opinbera en konur.

Þessi skipulagsbreyting mun ekki taka á rót vandans eða ástæðu þess að við höfum hér á landi mun meiri launamun kynjanna en gerist almennt í öðrum EES-löndum. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að það er mjög mikill launamunur milli einkageirans og opinbera geirans. Meiri hluti karla eða um 80% karla unnu árið 2008 í einkageiranum þar sem greidd eru mun hærri laun en í opinbera geiranum en konur skiptast tiltölulega jafnt milli einkageirans og opinbera geirans.

Það sem ég hef hins vegar áhyggjur af varðandi þetta frumvarp er að það muni leiða til þess að laun lækki almennt hjá hinu opinbera, sérstaklega hjá menntuðu starfsfólki. Það mun gera það að verkum að spekileki mun aukast frá opinbera geiranum til einkageirans. Meðalheildartekjur í einkageiranum voru t.d. 22% hærri en í opinbera geiranum árið 2008, eins og fram kom í könnun sem gerð var af Félagsvísindastofnun. Í henni var fjármálageirinn ekki inni og má geta þess að fjármálageirinn tók yfirleitt ekki þátt í launakönnunum vegna þess að það hefði þýtt miklu meiri launamun milli stétta og karla og kvenna.

Þessi spekileki mun ekki einskorðast við að fólk flýi úr opinbera geiranum yfir í einkageirann heldur líka til útlanda. Gengishrunið hefur þýtt að laun hér á landi eru umtalsvert lægri en á Norðurlöndunum. Af því hef ég miklar áhyggjur og þess vegna langar mig til að beina fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um hvort fyrirhugað sé að endurmeta eða endurskoða laun forsætisráðherra þannig að laun fyrir það starf séu í einhverju samræmi við laun í einkageiranum.