137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[20:08]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemur mér nokkuð á óvart því að hann hefur gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir lítinn dug í efnahagsaðgerðum. Hann hefur kallað eftir því að ríkisstjórnin kæmi með trúverðugar tillögur um samdrátt í ríkisrekstri. Hann veit það afskaplega vel að af rekstrarútgjöldum ríkisins eru 70% laun og hann talar hér um það sem eina hina mestu vá sem að ríkinu geti steðjað að laun lækki hjá ríkinu.

Ef hv. þingmaður meinar eitthvað með því sem hann segir, og hann hefur líka sagt að hann vilji verja velferðarútgjöld, og þar er nú yfirgnæfandi hluti laun, m.a.s. allmikið, gríðarlega miklu lægri laun en hér er verið að ræða um, þá hlýtur hann að skilja það að ein af forsendunum fyrir því að við getum náð t.d. þeim 14 milljörðum sem við erum að vonast til að ná í rekstraraðhaldi á næsta ári er sú að okkur takist að feta í fótspor lýðskrumaranna, flokksbræðra hans og -systra í Reykjavík, sem hafa gert nákvæmlega það að semja við starfsmenn sína um endurskoðun á ósamningsbundnum launagreiðslum og náð með því 4% samdrætti í launaútgjöldum, hinir miklu lýðskrumarar, meiri hluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í Reykjavík. Nú eða lýðskrumaranna flokksbræðra hans í kjördæmi hans á Akureyri sem eru í því með Samfylkingunni, hv. þingmaður, hafa unnið að því að lækka ósamningsbundin laun umfram 200 þús. kr.

Það er auðvitað þannig að við þurfum að lækka ósamningsbundin laun ef við ætlum að ná einhverjum markmiðum um aðhald í ríkisrekstri. Það, hv. þingmaður, að átelja ríkisstjórnina fyrir að ganga hvívetna fram til þess að draga úr launamun og þétta launabilið, það er lýðskrum.