137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[20:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér einn ganginn enn breytingu á lögum um kjararáð og fleiri lögum. Það hefur mikið verið til umræðu undanfarin ár og stefnan hefur lengi vel verið sú að fækka þeim hópum og þeim einstaklingum sem heyra undir kjararáð vegna þess að talið var æskilegra að menn semdu sjálfir um sín laun og myndaðist þar ákveðið jafnræði.

Hér verður ákveðin stefnubreyting og má segja að það sé í samræmi við margt annað. Það varð hrun hérna og margt hefur breyst. Menn gera margar ráðstafanir mjög víða en flestar eru þær ráðstafanir tímabundnar. Hér er hins vegar verið að gera varanlega ráðstöfun og ég hlýt að setja spurningarmerki við að menn breyti til frambúðar ákveðnum strúktúr sem hefði kannski mátt breyta til tveggja ára eða eitthvað svoleiðis.

Ég tek undir það sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson sagði áðan um samkeppni ríkisins við einkageirann og við útlönd sérstaklega. Ég vil benda á það að margar stéttir þurfa að fjárfesta í dýrri menntun til margra ára og hafa þar af leiðandi styttri starfsævi. Þeir þurfa á þeirri stuttu starfsævi að hafa hærri laun en aðrar stéttir bara til að ná sömu ævitekjum og til að fá til baka það fé sem þeir hafa fest í menntuninni. Þetta frumvarp tekur ekkert mið af því þannig að það borgar sig hreinlega ekki fyrir fólk að mennta sig vegna þess hámarks sem hér er sett. Nú er ljóst að ekki ná allir hæstu laununum sem í boði eru að menntun lokinni, margir eru kallaðir og fáir útvaldir. Ég nefni lækna, flugumferðarstjóra, flugstjóra og fleiri sem þurfa jafnvel að hætta starfi 55 ára og aðra sem ekki geta hafið störf að fullu fyrr en 35 ára. Þetta frumvarp tekur lítið sem ekkert mið af því og er dálítið hugsunarlaust að því leyti.

Hér hefur verið nefnt að við gætum misst hæft og gott fólk frá ríkisstarfi og kannski sérstaklega til útlanda. Ég hugsa að það sé kannski það sem okkur stafar mest hætta af núna. Sumir segja að krónan hafi bjargað stöðunni hér á landi og að við skulum ekki vera með einhverja pikkfasta evru eða eitthvað slíkt. Krónan hefur bjargað því að hér hefur ekki orðið eins mikið um gjaldþrot og hefði getað orðið, hvorki hjá einstaklingum né fyrirtækjum. Hún gerir það líka að verkum að búið er að lækka laun allra Íslendinga mjög verulega. Þeir sem eru í stöðu til þess að geta unnið bæði erlendis og heima — þá á ég við langskólamenntað fólk — horfa náttúrlega á allan heiminn sem starfsvettvang. Það fer nú heldur betur að halla á Ísland ef krónan lækkar launin fyrst, svo koma aukaskattar sem búið er að setja á laun yfir 700 þús. kr. og síðan kemur þetta til viðbótar. Þá hugsa ég að sumir fari nú að kíkja hvar ferðataskan er geymd.

Á sama tíma ráðum við hingað erlenda sérfræðinga á mörgum sviðum — ég nefni erlendan sérfræðing í sakamálum — og við borgum þeim væntanlega töluvert hærri laun en hér er verið að tala um og það eiginlega eingöngu vegna þess að þeir eru erlendir. Þetta rekst því allt saman hvað á annars horn. Þetta er í sjálfu sér ekkert annað, frú forseti, en birting þess að við erum með vinstri stjórn sem vill jafna laun og auka skattlagningu. Hún hefur ekki tekið á niðurskurði af neinu viti í velferðarkerfinu, hún hefur guggnað á því verkefni og leggur frekar á skatta og lækkar laun en að reyna að fjölga störfum og bæta stöðu ríkissjóðs með því að breyta fólki sem er með atvinnuleysisbætur yfir í vinnandi fólk sem borgar skatta, sem er náttúrlega miklu gáfulegra. Hér er verið að spara 50 milljónir og ef maður lítur á allan pakkann er það pínulítil baun. Og ef hægt er að gefa þessu eitthvert nafn mundi ég ekki endilega kalla það lýðskrum, þetta er svona öfundarskattur, menn eru með öfund og keyra á öfundinni í þjóðfélaginu. Margt af þessu er bara þannig að það gefur afskaplega lítið. Ég geri ráð fyrir að hátekjuskatturinn gefi mjög lítið hlutfallslega en hann róar þann sem öfundast yfir því að einhver sé með há laun og má þá flokka hátekjuskattinn undir öfundarskatt.

Skattlagning og hvatning til að hætta að sækjast eftir háum launum gera það að verkum að menn verða annaðhvort áhugalausir eða fara bara eitthvað annað, þeim sem hafa virkilega hæfileika og dýrmæta menntun standa yfirleitt allar dyr opnar. Mér finnst þetta vera frekar slæm þróun og alveg sérstaklega vegna þess að hún er ekki tímabundin. Ef staðið hefði til að breyta lögunum í tvö ár eða þrjú ár hefði ég getað fallist á það en með tilliti til alveg sérstakra aðstæðna. Við erum að brúa ákveðið bil, en að breytingin sé varanleg finnst mér ekki nógu sniðugt.