137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[20:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta er að mörgu leyti sérstakt mál. Ég ætla að taka undir með þeim sem hér hafa gefið í skyn að það sé svolítil vinsældalykt af þessu máli en ég tek samt líka undir orð hv. þm. Helga Hjörvars áðan um að í samfélagi okkar hafi verið orðið ákveðið hömluleysi og óhóf. Ég held hins vegar að það hömluleysi og óhóf hafi að stórum hluta átt sér stað einhvers staðar annars staðar en akkúrat þar sem þetta lagafrumvarp á að taka til en tel eðlilegt að allir hlutir séu skoðaðir.

Það sem ég undra mig svolítið á í þessu eru stríðsfyrirsagnir um að mikið sé hægt að spara í kerfinu með einhverjum aðgerðum eins og þessum en svo kemur fram í frumvarpinu sjálfu að það eru einar 50 millj. kr. sem þetta sparar. Ef það er markmið löggjafans eða ríkisstjórnarinnar að setja fram einhvers konar yfirlýsingu með þessu þá er rétt að þetta komi fram.

Ég hef hins vegar áhyggjur af nokkrum atriðum í frumvarpinu. Í fyrsta lagi velti ég því fyrir mér hver skilaboðin eru til þeirra sérfræðinga og þess hámenntaða fólks sem vinnur hjá ríkinu núna og vitna þá til orða formanns Læknafélagsins sem veltir því fyrir sér hvort læknar muni nú flykkjast úr landi vegna þess að lækka eigi laun þeirra. Hann orðaði það svo skemmtilega að það væri meiri eftirspurn eftir læknum erlendis en íslenskum pólitíkusum. Ég hugsa að það sé nokkuð rétt hjá honum.

Ég velti því síðan fyrir mér á hvaða vegferð ríkið er með þessu máli þegar við horfum upp á það að stjórnandi einhvers spjallþáttar í Ríkisútvarpinu hefur gefið upp að hann sé með 800 þús. kr. á mánuði í laun, sveitarstjórar og bæjarstjórar eru gjarnan með 700–800 og alveg upp í 1.100 þús. kr. á mánuði í laun, ef ég man rétt var rætt um að forseti ASÍ væri á verulega góðum launum, gott ef það var bara ekki upp undir milljón. (Gripið fram í: Milljón.) Þakka þér fyrir upplýsingarnar, hv. þingmaður.

Það sem ég hef þó mestar áhyggjur af er það að með þessu sé ríkisvaldið að setja ákveðna línu í launastrúktúrinn, ef ég má nota það orð, sem mun gera hinum almenna launþega, hinum almennu stéttum í landinu erfiðara fyrir að sækja sér hærri laun. Hvað ætlum við að segja við hinn almenna verkamann, við t.d. sjúkraliða eða hjúkrunarfræðing eða einhverja slíka þegar þeir fara að reyna að sækja sér kjarabætur ef við erum búin að segja að enginn megi hafa hærri laun en svo og svo mikið? Að enginn megi vera hærri en forsætisráðherra og eitthvað slíkt? Hvað erum við að segja við þetta fólk? Ég held að um leið séum við að segja að vegna þess að þetta fólk sem gegnir svona miklum ábyrgðarstöðum, ráðherrar, forsætisráðherra, hugsanlega forstjórar einhverra ríkisstofnana, megi ekki hafa hærri laun en þetta geti menn eðlilega ekki samið um hærri laun. Eða erum við að segja að almennir starfsmenn ríkisins, sem hafa væntanlega einhverja menntun, eða almennir verkamenn geti sótt upp að þeim mörkum sem stjórnendur hafa? Ég held að við þurfum að velta þessu svolítið fyrir okkur því að þetta skiptir verulegu máli.

Svo er hins vegar hægt að taka umræðu um það hvort laun forsætisráðherra eru yfirleitt nógu há. Hvort það sé ekki hreinlega meinið. Ég velti því fyrir mér í ljósi þeirrar stöðu sem það embætti hefur. En megináhyggjur mínar snúa að því að með því að samþykkja þetta frumvarp, ef það fer í gegn, sé verið að setja tappa, jafnvel varanlegan tappa í þær launa- og kjarabætur sem almenningur getur í raun sótt sér og almennir starfsmenn ríkisins.