137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[20:34]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa reifað áhyggjuefni sem fylgja því frumvarpi sem við ræðum nú. Það eru mjög réttmæt sjónarmið að með þeirri aðgerð sem við ræðum hér gætum við m.a. horft upp á það að fá ekki jafnhæft fólk til starfa og ella hefði verið og jafnvel horft upp á meiri fólksflutninga frá landinu en nú eru, því að nú þegar á fyrstu mánuðum hrunsins eru fjölskyldur í nokkrum mæli að yfirgefa Ísland. Vonandi að ekki verði framhald á því, en eins og horfurnar eru og aðgerðir ríkisstjórnarinnar sýnist mér, því miður, að áframhald verði þar á.

Mér finnst mikilvægt að ríkisstjórnin og fjármálaráðherra svari ákveðnum spurningum um það hvernig menn ætli að hefja þá vegferð að skera niður ríkisútgjöld. Í þessu bráðsnjalla frumvarpi sem stjórnarliðar guma sig af er talað um að hægt verði að ná um 50 millj. kr. á ári í sparnað. Ég vil í því samhengi minna á hvert fyrsta verkefni ríkisstjórnarinnar var þegar hún var mynduð í kjölfar síðustu kosninga en það var að fjölga ráðherrum um tvo. Mér telst svo til að laun og launatengd gjöld tveggja ráðherra séu um 22 millj. kr., um 18 millj. fyrir tvo aðstoðarmenn, síðan þurfa þessir ágætu ráðherrar bílstjóra og þeir þurfa að reka bíl, þannig að við erum komin vel yfir þær 50 millj. kr. sem ríkisstjórnin hefur kynnt svo mjög með þessu frumvarpi. Ég held að það væri efni og ástæða til þess að hæstv. fjármálaráðherra svaraði okkur þingmönnum því hvenær núverandi ríkisstjórn ætlar að byrja á að taka til heima hjá sér.

Ljóst er að það eru uppi tillögur um hvernig sameina megi ráðuneyti. Það væri hægt að fækka ráðherrum um tvo, ráðuneytisstjórum um tvo, aðstoðarmönnum um tvo, bílstjórum um tvo og annað utanumhald upp á tugi milljóna króna. Þegar hæstv. ráðherrar tala fyrir því að nú séu erfiðir tímar fram undan hjá opinberum starfsmönnum og opinberum stofnunum, og þá erum við að tala um skóla og heilbrigðisstofnanir, er þá ekki rétt að ríkisstjórnin gangi á undan með góðu fordæmi og byrji heima hjá sér á einhverjum samdrætti í þeim efnum með því að fækka ráðuneytum úr tólf í tíu? Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hvers vegna gengur ekki ríkisstjórnin, í ljósi þess að staða mála er svo miklu alvarlegri en hún hafði gert sér grein fyrir — og það eru tilbúnar tillögur um það að sameina ráðuneyti — á undan með góðu fordæmi og sameinar ráðuneyti og fækkar þeim úr tólf í tíu? Spyr sá sem ekki veit.

Ef ríkisstjórninni færi nú í þá aðgerð mundi maður sýna hörðum aðgerðum í opinberum fjármálum meiri skilning en ella en það fyrsta sem núverandi ríkisstjórn gerði eftir að hún tók til starfa var að fjölga ráðherrum um tvo með öllu sem því fylgir. Ég heiti á hæstv. fjármálaráðherra að ganga á undan með góðu fordæmi og taka til á borði ríkisstjórnarinnar í þessum efnum því að þar er svo sannarlega líka hægt að hagræða, frú forseti.