137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[22:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir innlegg þeirra í umræðu um málið og hlý orð í minn garð en það hefur nú ekki verið erfitt að stjórna hv. efnahags- og skattanefnd eins vel og hún er mönnuð. Mér telst til að ég hafi þar á að skipa ekki færri en fjórum hagfræðingum, einum stærðfræðingi og tveimur með meistaragráðu í viðskiptastjórnun auk eins fyrrverandi framkvæmdastjóra úr atvinnulífinu sjálfu þannig að ég hef búið að því að hafa mikla og góða þekkingu sem varðar þetta málasvið í nefndinni. Sömuleiðis að þeirri yfirlýsingu hæstv. fjármálaráðherra við 1. umr. málsins um að hann legði það í raun og veru fram eins og hann hefði fengið það útfært frá tæknimönnunum og hann gaf í framsöguræðu sinni við 1. umr. nefndinni mjög frjálsar hendur með að vinna með málið eins vel og hún gæti. Það umboð frá hæstv. fjármálaráðherra er þakkarvert.

Við munum auðvitað, þó að mikilvægt sé að vinna hratt og vel að endurreisn íslensks atvinnulífs, taka þann tíma í meðferð þessa máls sem þarf til þess að sem best verði til þess vandað og hægt að koma til móts við sem flest sjónarmið. Við munum áfram fjalla um þau sjónarmið sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson reifaði milli 2. og 3. umr. þó að það verði trúlega alltaf deilt um stjórnarskipunina, eins og hv. þm. Þór Saari nefndi hér, á hvern veg sem hún verður. En ef við getum fundið leiðir til þess að styrkja þann þátt málsins frekar til að skapa meiri sátt og eyða tortryggni hljótum við að leitast við að gera það.

Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir að skýra vel ýmsa þætti málsins og vil að lokum taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal um að við verðum að fjalla um þessi mál með þeim hætti sem veruleikinn hefur búið okkur. Öll stærstu fjármálafyrirtæki landsins eru orðin ríkisfyrirtæki. Þau hafa hjá sér mikinn fjölda af fyrirtækjum í miklum skuldavanda og eiga ýmist eða gætu átt gríðarlegan fjölda fyrirtækja sem hjá þeim eru í viðskiptum. Þess vegna er óhjákvæmilegt að ríkið hafi skýra stefnu og sterka aðkomu að þessari uppbyggingu því að eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði er þetta allt löðrandi í pólitík. En einmitt vegna þess að við höfum lært það af reynslunni að við þurfum að gæta sem allra best faglegra sjónarmiða í atvinnulífinu og reyna að draga úr pólitískum áhrifum sem mest er hér reynt að skipa málum þannig að þau séu armslengd frá stjórnmálunum og milli 2. og 3. umr. geri ég ráð fyrir að í þinginu komi líka fram stjórnarfrumvarp um sérstaka eignarhaldsstofnun fyrir þetta félag og sömuleiðis fyrir ríkisbankana sem er þá gefinn möguleiki á að skipað gæti stjórn þessa félags. Þannig væri stjórnarskipunin í rauninni færð úr höndum ráðherrans og við hljótum að skoða það milli umræðna um málið um leið og ég þakka fyrir þessa góðu umræðu.