137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

hvalir.

112. mál
[22:20]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri í sjálfu sér ekki athugasemdir við að settur skuli lagarammi um veiðar á hvölum sem fyrrverandi sjávarútvegsráðherra leyfði korteri fyrir kosningar og það til nokkurra ára. Það eru hér mörg ákvæði sem vert er að taka vel í og fagna og ég vona að þau atriði sem mér líkar miður í þessu frumvarpi verði lagfærð í nefnd.

Mig langar aðeins til að nefna tvennt í stuttu andsvari. Annars vegar er gerð tillaga um að þetta frumvarp til laga fari til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Ég vil hvetja formann þeirrar nefndar til að vísa málinu til umsagnar umhverfisnefndar vegna þess að það skiptir verulega miklu máli að verndunarsjónarmið fái aðkomu að umfjöllun um þetta mál. Ég tel að það skorti svolítið á það. Ég tel tilvísun til alþjóðasamninga of þrönga. Hér er aðeins vísað til alþjóðahafréttarsáttmálans en Bernarsáttmálinn og jafnvel Osmar-sáttmálinn, sáttmálar sem við Íslendingar höfum gert fyrirvara við eru hvergi nefndir.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hverju það sætir að hvalveiðigjald sem hér er gert ráð fyrir að renni til Fiskistofu skuli ekki áætlað nema 1.000 kr. á þessu ári en að öðru leyti er reiknað með að það sé miklum mun hærra, eitthvað um 2.800 kr. á kíló.