137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

hvalir.

112. mál
[22:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvað hvalveiðar skapa mörg störf. Nú er mikill skortur á störfum í landinu, atvinnuleysi og atvinnunauð.

Þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki alveg öruggt að hann tryggi hvalveiðar áfram. Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti ekki séð fyrir sér að tengja saman ferðaþjónustu og hvalveiðar. Nú hefur ferðaþjónusta blómgast mjög mikið, líka eftir að hvalveiðar voru teknar upp og virðist það ekki hafa nein áhrif á ferðaþjónustuna þrátt fyrir spádóma um annað. Getur hæstv. ráðherra hugsað sér að tengja saman t.d. 8. gr. um þekkingu og reynslu af hvalveiðum þannig að seld verði veiðileyfi á hval? Það þykir mjög gott og fínt víða í Afríkuríkjum að menn veiði dýr af ýmsum stærðum og spurningin er hvort hæstv. ráðherra geti hugsað sér að selja veiðileyfi á hval, við skulum segja á 10 millj. eða 20 millj. á stykkið. Því fylgi kennsla á skutul og þriggja vikna námskeið þar sem veiðimennirnir búa á fimm stjörnu hóteli og borga svo fyrir hvern veiddan hval upp á 10 millj. Svo mega þeir hirða beinagrindina fyrir 1 eða 2 millj. í viðbót og fá svo mynd af sér. Sér hæstv. ráðherra það sem möguleika í ferðaþjónustu að tengja saman hvalveiðar og ferðaþjónustu?