137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

hvalir.

112. mál
[23:13]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Jóni Gunnarssyni að þetta er áhugavert sjónarhorn á þessu máli. Mér er tjáð að hrefnuveiðimönnum hafi á sínum tíma verið færðar nokkrar bætur vegna atvinnumissis en slíkt hafi ekki átt við um þá sem sinntu stórhvalaveiðum og er það auðvitað umhugsunarefni að einhverjar slíkar bætur hafi verið inntar af hendi. Í því er fólgin ákveðin viðurkenning á réttarstöðu í krafti nýtingarsögu og væri áhugavert að hv. landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd skoðaði þann þátt áður en lengra er haldið.

Ég vil reyndar benda á að aftur kemur upp sú staða sem við ræddum varðandi fiskveiðar að frumvarpið gerir ráð fyrir því að allir sem uppfylla ákveðin skilyrði geti stundað veiðarnar og ef hægt er að hafa af þeim góðan hagnað má auðvitað reikna með því að fleiri verði um hituna. Sagan segir okkur að hinn mikli gróði hvalveiðanna á Íslandsmiðum leiddi til þess að sóknin í þær stórjókst, skipunum fjölgaði og að lokum leiddi það til ofveiði og hvalveiðibanns á fyrri hluta 20. aldar og svo aftur síðar á síðari hluta 20. aldar. Það er því líka umhugsunarefni hvort það sé skynsamlegt út frá nýtingarsjónarmiðum, ég tala ekki um ef við viljum ekki láta hvalveiðikvótann vaxa mjög hratt, að hafa þetta opið með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir.