137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

hvalir.

112. mál
[23:20]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tæplega hægt að skilja hv. þm. Illuga Gunnarsson með öðrum hætti en að hann telji svo vera þrátt fyrir það sem kemur fram í frumvarpinu að hér sé ekki um þjóðareign að ræða eða sameign eða eign ríkisins eða hvaða orðum hann kýs að koma að þeirri hugsun heldur standi hugur hans nærri því að þetta sé séreign ákveðinna fyrirtækja, einstaklinga í samfélaginu sem einhvern tíma hafa nýtt auðlindina með þessum hætti. Það er í sjálfu sér ekki mikill munur á fiskveiðum og hvalveiðum, í hvoru tilfellinu er verið að nýta auðlind, auðlindir sjávar.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður orðaði það í ræðu sinni fyrr í kvöld að hið opinbera sé að kasta eign sinni á auðlindina. Það finnst mér ansi djúpt í árinni tekið hjá hv. þingmanni og undirstrikar enn frekar að hann telur þessar sjávarauðlindir og líklega aðrar auðlindir lands og sjávar ekki sameign þjóðarinnar, ekki sameign fólksins í landinu heldur séreign óskilgreindra aðila oft og tíðum.

Réttarstaða fyrirtækisins Hvals hefur borist ítrekað til tals í ræðum þingmanna í kvöld. Menn velta því fyrir sér hver réttarstaða fyrirtækisins Hvals sé. Menn hafa nefnt sömuleiðis hrefnuveiðimenn sem í eina tíð veiddu hrefnur og ég man eftir því þegar ég var ungur drengur norður í landi og hrefnubátar voru að koma í land og ég var sendur að heiman til að kaupa hrefnukjöt af bryggjunni. Ég velti fyrir mér réttarstöðu hrefnuveiðimanna hvort hann liti þannig á — einhverjir eru farnir að róa á önnur mið hinum megin móðunnar — hvort hann telji að þeir eigi rétt og fylgi þeim þannig að jafnvel sé hægt að gera kröfu í dánarbú og arf þeirra sem þá voru við hrefnuveiðar.