137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

hvalir.

112. mál
[23:22]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var einmitt lóðið. Hrefnuveiðimennirnir margir hverjir fengu bætur vegna þess að þeir misstu möguleikana á því að sinna þessum veiðum. Einhver hafa rökin verið fyrir þeim bótum vegna þess að almennt fá menn ekki bætur þótt þannig breyting verði í hagkerfinu að fyrirtæki þeirra fari á hausinn vegna þess að þau séu ekki lengur samkeppnishæf eða eitthvað þess háttar. Þarna er um eitthvað annað að ræða. Þetta annað snýr þá væntanlega að spurningunni um réttindi og það er alveg rétt. Fiskveiðar og hvalveiðar snúa að því að nýta auðlindir hafsins. Það sem ég var að benda á og er áhugavert í þessari umræðu er að hérna hefur liðið nokkur tími þar sem engin nýting á sér stað. Þá kemur upp sú spurning: Hvernig ætla menn á að halda þegar aftur er hafist handa við nýtinguna? Í þessu tilviki er það ríkið sem ákveður að kasta eign sinni á auðlindina. Það er það sem ég átti við. Þar með kemur ríkið og segir: Við ætlum að útdeila þessu með þeim hætti að við ætlum að innheimta gjald. Við ætlum að innheimta fast gjald og síðan breytilegt kílóagjald. Í því er fólgin heilmikil stefnuyfirlýsing. Þetta hefur auðvitað með að gera grundvallarspurningu um það hvernig við nýtum náttúruauðlindir og ég er þeirrar skoðunar að þar sem um er að ræða nýtingarsögu, þar sem einstaklingar hafa þróað auðlindir og auðlindanýtingu þá sé hægt að réttlæta það og sé skynsamlegt og þeim sjóðum hafi farnast best sem hafa farið þá leiðina að láta einstaklingana eiga nýtingarréttinn en þar sem slíkri nýtingarsögu er ekki að dreifa eru rök fyrir því að hið opinbera, ríkisvaldið slái eign sinni á auðlindina. Þess vegna er ég ekki að segja — og hv. þingmaður má ekki misskilja mig — að það sé óeðlilegt eða útilokað að ríkisvaldið geri slíkt. Menn verða auðvitað að gera það með opin augun og átta sig á því hver munurinn er á hvalveiðunum annars vegar þar sem er hið langa rof í nýtingarsögunni og fiskveiðum hins vegar þar sem ekkert slíkt rof hefur átt sér stað.