137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

heilbrigðisstarfsmenn.

113. mál
[23:35]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn, rammalög sem ætlað er að tryggja gæði og öryggi sjúklinga varðandi þjónustu og skilgreina kröfur og færni og starfshætti heilbrigðisstarfsmanna. Þetta er lagarammi sem fellir úr gildi alls fjórtán sérlög og kveðið er á um það einmitt í 32. gr. frumvarpsins að þessi lög falli öll úr gildi. Á sama tíma er í frumvarpinu, í greinargerðinni fjallað um ákvæði gildandi laga. Það er á blaðsíðu 10 í greinargerðinni. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Þegar þessir lagabálkar falla úr gildi og þau ákvæði sem lýst er þarna á blaðsíðu 10 falla úr gildi hvernig verður þá framkvæmdin í framhaldinu? Koma þá reglugerðir sem kveða nánar á um hvernig menn skuli haga störfum sínum eins og fjallað er um í lögunum, þ.e. um hvort menn geti starfað sjálfstætt og hverjir þá og hverjir þurfi að starfa á ábyrgð annarra heilbrigðisstétta og þá hvaða heilbrigðisstéttir megi hafa aðstoðarmenn og svo framvegis?

Ástæðan fyrir að ég spyr er að þarna eru nefndar meðal annars stéttir eins og sjúkraþjálfar og iðjuþjálfar. Starfssvið þessara starfsstétta hefur breyst mjög, til dæmis iðjuþjálfanna sem unnið hafa í skólum og við alls konar ráðgjöf. Vandséð er að slíkar starfsstéttir sem hafa góða og öfluga menntun þurfi að starfa undir handleiðslu lækna eða vera undir stjórn lækna eins og kveðið var á um í eldri lögum. Mig langar aðeins að fá skýrt hvernig framhaldið verður í sambandi við framkvæmdina ef þetta frumvarp verður að lögum.