137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

heilbrigðisstarfsmenn.

113. mál
[23:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns falla með þessum lögum, ef Alþingi samþykkir þau, alls fjórtán sérlög um heilbrigðisstéttir úr gildi og breyting verður á fjölmörgum reglugerðum sem snúa að heilbrigðisstéttum. Hv. þingmaður vísaði í stéttir sem sérlög gilda um, til dæmis iðjuþjálfa og sjúkraþjálfa, en í lögum sem gilda um þá eru ýmsar takmarkanir, til dæmis í þá veru að iðjuþjálfi má ekki taka sjúkling til meðferðar án samráðs við lækni. Það er kveðið á um þetta í lögum um iðjuþjálfa og um fjölmargar aðrar heilbrigðisstéttir eru slíkar takmarkanir. Með samþykkt þessara laga falla þessi ákvæði úr gildi. Í sumum tilvikum þarf að setja reglugerðir. Í öðrum tilvikum er óþarfi að gera það. En þar sem þær eru settar þá er það gert með það að leiðarljósi að starfssvið heilbrigðisstétta verði ákveðið á grundvelli þekkingar og hæfni með tilliti til hagsmuna sjúklinga og, eins og segir í greinargerðinni, með leyfi forseta: „úrelt ákvæði um takmarkanir á starfsréttindum felld brott“. Með þessum lögum er því verið að nema úr gildi ýmsar takmarkanir sem snúa meðal annars að þeim starfsstéttum sem hv. þingmaður vék að.