137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

Icesave -- endurskoðun raforkulaga -- greiðsluaðlögun -- vinnubrögð á Alþingi o.fl.

[10:46]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að taka aðeins þátt í þeirri umræðu sem hv. þm. Pétur H. Blöndal átti frumkvæði að við hv. þingmann og þingflokksformann Samfylkingarinnar Björgvin G. Sigurðsson áðan um Icesave-samninginn. Hv. þingmaður sagði að það kæmi í ljós eftir vandlega yfirferð á þinginu hvernig þingflokkur Samfylkingarinnar mundi greiða um hann atkvæði.

Í umræðu hér fyrr í mánuðinum um margumrætt minnisblað við Hollendinga, sem formaður samninganefndarinnar sagði að hefði elt samninganefndina eins og draugur allt ferlið, kallaði hæstv. utanríkisráðherra það, með leyfi forseta, „minnisblað um samningsstefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir gagnvart Hollendingum“. Svo vísaði hann síðar í ræðu sinni til þessa „ólukkuminnisblaðs“ við Hollendingana.

Hæstv. ráðherra lét að því liggja að þetta hefði verið gert af hálfu ráðherra Sjálfstæðisflokksins við Hollendinga og kom það nokkuð á óvart, og það að starfandi utanríkisráðherra hefði ekki vitað þetta er í sjálfu sér umhugsunarefni og spurning hvort utanríkisráðherrann sem þá var í veikindaleyfi vissi af minnisblaðinu.

Það er samt ekki það sem ég ætlaði að spyrja um. Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann, formann þingflokks Samfylkingarinnar, hvort aðrir þingmenn Samfylkingarinnar og ráðherrar hafi vitað af þessu minnisblaði á þeim tíma og þá sérstaklega hvort fyrrverandi hæstv. bankamálaráðherra, viðskiptaráðherrann Björgvin G. Sigurðsson, hafi vitað af umræddu minnisblaði þegar það var til og hvort Tryggingarsjóður innstæðueigenda, sem heyrir undir viðskiptaráðuneytið, hafi áritað samninginn án vitundar þáverandi hæstv. bankamálaráðherra.