137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

Icesave -- endurskoðun raforkulaga -- greiðsluaðlögun -- vinnubrögð á Alþingi o.fl.

[10:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mér finnst það mikið ábyrgðarleysi af þingflokki Samfylkingarinnar og hv. þingmönnum stjórnarliðsins að hafa samþykkt að veita fjármálaráðherra leyfi til að skrifa undir þennan samning án þess að fram hafi farið nein vitræn umræða um kosti hans og galla og afleiðingar fyrir íslenska þjóð.

Mér finnst of seint að koma núna þegar hæstv. fjármálaráðherra er búinn að skrifa undir samninginn og ætla að ræða um hlutina fram og til baka. Það er búið að skrifa undir samninginn, frú forseti. Mér finnst þetta verulega mikið ábyrgðarleysi hjá báðum þingflokkum stjórnarliðsins, báðum, að heimila þessa undirskrift án þess að hafa séð samninginn. Það er alveg með ólíkindum, frú forseti, að menn skuli vinna svona.

Ég hef meira að segja grun um það að sumir ráðherrar ríkisstjórnarinnar, og hér er nú einn staddur, hafi ekki heldur séð þennan samning áður en þeir fólu hæstv. fjármálaráðherra að skrifa undir hann.

Það er nefnilega reginmunur á samningi sem er óundirritaður og samningi sem er undirritaður. Meðan samningurinn er óundirritaður geta menn samið aftur, sent sendimennina aftur út og sagt: Þetta er ekki nógu gott. Þessi samningur er ekki nógu góður. Það er mjög einfalt. Það verða að vera í honum einhver hámörk þannig að þjóðin geti greitt þessar skuldbindingar og það séu ekki neinar líkur á því að hún geti farið á vonarvöl.