137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

Icesave -- endurskoðun raforkulaga -- greiðsluaðlögun -- vinnubrögð á Alþingi o.fl.

[10:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina smáhugvekju eða spurningu til formanns iðnaðarnefndar, hv. þm. Skúla Helgasonar, en vil byrja á að taka undir þau orð sem Pétur H. Blöndal sagði hér. Það sem ég er að velta fyrir mér varðar olíuleit á Drekasvæðinu. Ég hef verið mjög hugsi yfir þessu, ekki síst eftir að aðili úti í bæ, ef ég má orða það þannig, kom að máli við mig eftir að hafa velt hlutunum fyrir sér. Hann hefur áhyggjur af stöðu þjóðarinnar. Eins er ég hugsi eftir heimsókn manna sem eru að vinna að þessari olíuleit fyrir hönd okkar og fór að velta því fyrir mér eftir þessi samtöl tvö hvort aldrei hefði komið til tals að semja hreinlega við eða kanna áhuga t.d. Norðmanna, Dana, Bandaríkjamanna eða einhverra sem eru búnir að leita að olíu áratugum saman og þekkja þetta eins og lófann á sér. Væri ekki rétt að athuga hvort þeir hefðu hreinlega áhuga á að leigja þetta svæði til olíuleitar?

Ef við ætlum okkur á annað borð að vinna þarna olíu, er þá ekki skynsamlegra að leita til aðila sem kunna þetta þannig að það sé hægt að vinna þetta miklu hraðar, koma ferlinu hraðar af stað?

Samningar um svona gætu verið margvíslegir. Ein hliðin á þessu gæti verið sú að ef við t.d. ætluðum að semja við Norðmenn mundum við semja bara við þá vegna þess að við vitum að olíulindir eru að tæmast og menn þurfa að fara að huga að þessu og vilja það gjarnan, t.d. Norðmenn. Þeir mundu fá einkarétt á þessu í einhver tiltekin ár, borga okkur nokkur hundruð, eða þúsundir milljarða jafnvel, fyrir leyfið en þegar þeir væru búnir að ná ákveðinni ávöxtun á fjárfestingu sína, t.d. 10% ávöxtun eða eitthvað slíkt, kæmi þetta til okkar aftur. Ég spyr (Forseti hringir.) hv. formann hvort þetta hafi yfirleitt komið eitthvað upp.