137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

Icesave -- endurskoðun raforkulaga -- greiðsluaðlögun -- vinnubrögð á Alþingi o.fl.

[11:00]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þm. Eygló Harðardóttir segir, bankakreppan hér er miklum mun dýpri en aðrar þær sem við berum okkur saman við. Einn mælikvarði á það er töpuð útlán. Töpuð útlán í bankakreppunum á Norðurlöndum, bæði í Noregi og í Svíþjóð, voru einhvers staðar á bilinu 12–15%. Í Tælandi voru þau yfir 20%. Og hvað skyldu þau hafa verið hér í fyrrahaust þegar bankakerfið hrundi? 60%. Af þessu má auðvitað ráða stærðina á bankakreppunni.

Ég get einnig tekið undir með hv. þingmanni með það að lög um greiðsluaðlögun voru sett hér við mjög óvenjulegar aðstæður. Við hefðum átt að vera búin að innleiða þetta úrræði í íslenskan rétt fyrir lifandi löngu. Ég leyfi mér að minna á það að frumvörp um það efni hafa komið hér fram áreiðanlega í ein 10–15 ár. (Gripið fram í: Meðal annars framsóknarmenn.) Meðal annars framsóknarmenn, segir hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Ég vil bara nefna að helsti forgöngumaður í þessum málum er núverandi hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan og vitna í góðan samstarfssáttmála eða yfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna um að nú er að fara í gang heildarmat á þörf fyrir frekari aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Ég bind miklar vonir við það. Það er alveg ljóst í mínum huga að ef lögin um greiðsluaðlögun virka ekki nógu vel — og þá meina ég til þess að fella niður skuldir, það er ekkert um annað að ræða. Greiðsluaðlögunin er til þess að fella niður þær skuldir sem menn geta ekki greitt — verðum við bara að komast fyrir það og (Forseti hringir.) leiðrétta það.