137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[11:12]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Eins og sumir þingmenn sjá hafa þingmenn Framsóknarflokksins ákveðið að sitja hjá við tillögu um breytingu á þessum lið. Hann fjallar um það hvernig eigi að skipa stjórn félagsins og við framsóknarmenn höfum gert verulegar athugasemdir við það hvernig stjórnin á að vera skipuð. Við viljum fá að sjá miklu faglegra skipunarferli. Hér er kveðið á um það að stjórnin skuli skipuð fimm mönnum og tveimur til vara og skulu þeir kosnir á aðalfundi ár hvert. Ég er ekki viss um hversu mikið fjör verður á þessum aðalfundi vegna þess að þar verður væntanlega bara einn maður, hæstv. fjármálaráðherra. Þó að hann sé ágætur maður mættu alveg vera þarna fleiri. Hann mun þá einn skipa í þessa stjórn. Við teljum fulla ástæðu til að leggja áherslu á að fleiri komi að tilnefningu í þessa stjórn og það verði gert með mun faglegri og ópólitískari hætti.