137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[11:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega alveg fráleitt hvernig stjórnarflokkarnir hafa hagað sínum málum. Það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en blekkingar gagnvart fólki, að menn hafi fyrir kosningar farið um allt og talað eins og það væri ekkert mál að halda úti óbreyttu stigi en strax að afloknum kosningum hlaupa menn til. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Afmælisbarnið verður að una þessu. Þetta er eins og hlutirnir gerðust og er algerlega skjalfest, að menn voru að opna menningarhús og hvaðeina rétt fyrir kosningar. En látum það liggja á milli hluta.

Ég spurði annarrar spurningar og vil biðja hæstv. ráðherra vinsamlegast að nota tímann til að svara henni: Hefur það verið metið hvað þessi launaskattur sem er 12,5 milljarðar samkvæmt upplýsingum hæstv. fjármálaráðherra muni skila sér í auknu atvinnuleysi?