137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[11:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki efast ég um að hæstv. fjármálaráðherra hefur áttað sig á því fyrr en nú í júní að grípa þyrfti til víðtækra aðgerða í ríkisfjármálum. Ég veiti því hins vegar athygli að þegar þessar aðgerðir eru kynntar leggur hæstv. ráðherra megináherslu á að vegna þess hve langt er liðið á árið, vegna þess hve skammur tími er til stefnu, verði að leggja allan þungann á tekjuhliðina en ekki sé hægt að fara í niðurskurðarhliðina.

Ég velti því fyrir mér og spyr hæstv. fjármálaráðherra, sem áreiðanlega hefur gert sér grein fyrir því snemma árs að fara þyrfti í verulegar niðurskurðar- og aðhaldsaðgerðir hjá ríkinu: Var kannski ekkert farið af stað við að útfæra eða vinna slíkar niðurskurðar- og aðhaldsaðgerðir fyrr en núna einhvern tíma í maí eða júní? Hæstv. fjármálaráðherra hefur (Forseti hringir.) haft tíma frá 1. febrúar til að vinna að þessum málum.