137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[11:54]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þegar leið á marsmánuð og kom fram í apríl fór það að verða ljóst að það stefndi í verulega aukinn halla á ríkissjóði umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir og er í forsendum fjárlaga yfirstandandi árs. Þá mátti mönnum strax vera ljóst að æskilegt væri að grípa til aðgerða þegar innan ársins ef menn ætluðu að reyna að halda sig á upphaflegri áætlun og þá var það líka sagt að þess mundi þurfa og það væri þjóðhagslega og efnahagslega skynsamlegt að fresta því ekki til áramóta að hefjast handa um að takast á við vandann og vissulega var þá hafinn ýmiss konar undirbúningur að því. Síðan þurfti að kjósa og sjá fyrir um það hvaða nýja ríkisstjórn sæti við borðið til að framfylgja því og framkvæma það. Eins og ég hef áður sagt stóð aldrei til að þessar viðamiklu ráðstafanir tækju gildi fyrr en á síðari helmingi ársins. Það er nákvæmlega það sem hér er verið að leggja til, að menn noti síðari helming ársins til þessara aðgerða og takist að afgreiða málið á Alþingi fljótt og vel mun það ganga eftir.