137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[11:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt ábending hjá hv. þingmanni að stóraukin útgjöld til Atvinnuleysistryggingasjóðs eru verulegur hluti af þeim 20 milljarða viðbótarhalla sem hér er verið að glíma við. Það er að sjálfsögðu hægt að sundurliða forsendur þess hvernig menn komast að þeirri niðurstöðu að að óbreyttu stefni í yfir 20 milljarða viðbótarhalla á ríkissjóði á þessu ári verði ekkert að gert en þar er stærsti einstaki liðurinn á útgjaldahliðinni aukin útgjöld til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Að hinu leytinu skýrist þetta af tekjufalli sem er umfram það sem áætlað var. Þessar forsendur veit ég að hv. þingnefnd, bæði efnahags- og skattanefnd og fjárlaganefnd munu örugglega fara ofan í og það eru ýmis gögn sem reiða má fram því til staðfestingar að þetta er u.þ.b. stærðargráða vandans sem hér er verið að takast á við. Það er tiltölulega einfalt að reikna það út hvað hvert prósentustig í auknu atvinnuleysi þýðir í útgjöldum og er fljótlegur reikningur.