137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[12:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var glögg athugasemd hjá hv. þingmanni, þarna er misræmi í tölum og ég held að sú tala sem er í textanum og ég las í framsöguræðu minni sé sú rétta, þ.e. að verðlagsáhrifin séu líkleg til þess að geta orðið um 0,25%, með þeim fyrirvörum þó sem ég hafði þar á, að það er ýmislegt sem bendir til að þau muni ekki að fullu koma fram og vel að merkja, þessi hækkun verður ekki fyrr en 1. september nk.

Taflan á bls. 11 birtir hins vegar yfirlit yfir heildartekjurnar. Þar eru 13 milljarðarnir á sínum stað, þ.e. þessir 2,7–2,8 milljarðar sem ákvarðanirnar frá því í maí skila í púkkið og þá fæst rétt samtala, rétt um 13 milljarðar kr. Miðað við það hversu umfangsmiklar þessar aðgerðir eru í heild sinni held ég að ekki verði sagt að verðlagsáhrifin séu mikil. Það er auðvitað erfitt að hreyfa sig í þessum efnum öðruvísi en að það hafi einhver kostnaðar- og verðlagsáhrif. (Forseti hringir.) Það verða menn að hafa í huga, en það ræðst að verulegu leyti af því hvort farin er leið beinna eða óbeinna skatta, (Forseti hringir.) með hvaða hætti það kemur fram.